Færsluflokkur: Dægurmál
Föstudagur, 15. ágúst 2008
Má Síminn ljúga og ljúga og ljúga?
Nú er Síminn byrjaður að auglýsa aftur að Frelsið stoppi tímann og að Frelsaðir geti talað og talað og talað og talað og talað og talað ... (ókeypis). Málið er að ef fólk tekur tilboði Símans og Frelsast þá getur það orðið býsna dýrkeypt. Það er nefnilega ekkert að marka Símenn þegar þeir segja að Frelsaðir geti talað og talað og talað ... (ókeypis)! Sleipir textasmiðir, útsmognir markaðsmenn og hálir auglýsingamenn hafa farið höndum um raunveruleikann og bjagað hann þar til upp er niður og hægri vísar til vinstri.
En látum verk þessara snjöllu Símanna dæma sig sjálft. Hér er texti úr nýjustu auglýsingunni sem nú er sýnd af mikilli ákefð í sjónvarpi:
Frelsi stöðvar tímann.
Fylltu á Frelsið með símanum og þú borgar bara fyrir fyrstu þrjár mínúturnar og getur svo talað og talað og talað.
Síminn.
Það er ekki hægt að túlka þetta öðruvísi en svo að eftir þriggja mínútna símtal stöðvi Síminn gjaldmælinn og leyfi fólki að tala og tala og tala ... (ókeypis). Það er engin stjarna sem vísar í smátt letur, það er ekkert smátt letur í auglýsingunni, það er enginn fyrirvari kynntur. Loforðið stendur eitt og óskorað. Þú borgar fyrstu þrjár mínúturnar og svo ekki söguna meir. Eða hvað?
Ef Frelsaðir hafa fyrir því að fara inn á vef Símans þá sjá þeir að þetta dásamlega tilboð Símans er bara gullslegin gildra sem ætlað er að lokka fólk í Frelsi sem reynist svo bara Helsi þegar öllu er á botninn hvolft. Í Frelsuðum heimi Símanna er gjaldmælirinn nefnilega settur í gang aftur (hljóðlega) eftir 30 mínútna símtal og þá fær sá Frelsaði að blæða og blæða og blæða (drjúgt) meðan hann talar og talar og talar (dýrt).
Nú getur háll og vatnsgreiddur Símaður líklega reynt að bera það fyrir sig að hann hafi gert ærleg mistök í textagerð í öllu kynningarefni fyrir endurnýjaða Frelsis kynningu. Slíkt er þó fjarri sanni. Það kemur glögglega í ljós þegar eldri útgáfa sjónvarps auglýsingarinnar er skoðuð, en þar er textinn á þessa leið:
Frelsi stöðvar tímann.
Fylltu á Frelsið með GSM símanum og þú borgar bara fyrir fyrstu þrjár mínúturnar og getur svo talað og talað fyrir núll krónur.
Síminn.
Lygin er ekki eins ber, en hún er jafn ljót. Ofurflottir Símenn hafa þar unnið fyrir kaupinu sínu þegar þeir gerðu textann óljósari, veiðilegri, safaríkari. Þannig völdu þeir ekki að skýra tilboð sitt, lýsa það og einfalda ... nei, þeir völdu að fara lengri leiðina, geri lygina þokukenndari, sölulegri, girnilegri. Nú eru þeir konungar alheims, rokkstjörnur í hæstu hæðum, guðir meðal manna. Þeir eru á toppi tilverunnar!
Því hvað er betra en að rukka og rukka og rukka meðan Frelsaðir tala og tala og tala?
PS. Ég vísa í gamla færslu sem Davíð Örn Sveinbjörnsson skrifaði í fyrra um þetta sama mál. Já, þetta er gamalt mál og sýnir hversu gírugur Síminn er í auglýsingamennsku sinni.
Þá er áhugavert að kynna sér auglýsingar á vef mbl.is og kynningu á vef Símans í .pdf skjali. Þar kemur glögglega í ljós að engir varnaglar eru slegnir og að ekki er með nokkrum hætti hægt að skilja auglýsingarnar öðruvísi en svo að þarna sé verið að kynna frábært tilboð sem henti vel á krepputímum.
Að lokum er rétt að birta eldri útgáfu auglýsingarinnar sem hægt er að skoða á YouTube. Áhugasamir verða að ímynda sér nýju útgáfu textans og að fyrirvarinn í lokin sé horfinn, en að öðru leyti hefur hún ekki breyst. Stelpurnar eru jafn yndislegar, stöðumælavörðurinn jafn undrandi ... og hlauparinn jafn ringlaður, rétt eins og við hin :)