Færsluflokkur: Sveitarstjórnarkosningar
Mánudagur, 5. maí 2014
Nokkur gullkorn úr stefnuskrá Kristna trúarbandalagsins
Jæja, það er gaman að sjá að Jón Valur hefur nú loksins staðið upp af koppnum, hysjað upp um sig brókina og tilkynnt um framboð sitt í öllum kosningum hérlendis sem í vændum eru nema auðvitað sveitarstjórnakosningunum eftir mánuð því hann hefur, jú, ekki haft nema 2-3 ár til þess undirbúa þetta. En dagljóst má telja að þessi þróttmikli einleikur á stjórnmálasviðinu myndi sópa að sér atkvæðum og myndi örugglega fá 50-100 hér í Reykjavík á góðum degi.
Ég gerði mér það til skemmtunar að fara í gegnum þá stefnuskrá Jóns Vals sem hengd var við frétt um framboðið á visir.is, en þar má margt misjafnt finna. Þar má finna nokkur skondin atriði eins og t.d. þetta gullkorn um trúfrelsi á Íslandi (áhugavert er að sjá að hinn sannkristni Moggi er ekki að flýta sér að birta þessa mikilvægu frétt):
Löghelgað verði í stjórnarskrá, að þrátt fyrir trúfrelsi á Íslandi njóti kristinn siður hér forgangs ...
Dagljóst er að kristinn siður mun auðvitað ekki eiga neinn uppdrátt hérlendis nema hann njóti forgangs á öllum sviðum. Auðvitað samræmist slíkt fullu trúfrelsi í heimi þeirra sem lifa nú síðustu góðu daga þess siðs. Við hin sjáum bara óttablandna ofsahræðslu í þessum orðum.
Svo kemur þessi sykurmoli um mál sem tengjast fjölskyldunni:
Fjölskyldumál [Aths.: byrja skal hér á pósitífum áherzlum.]
Kristin stjórnmálasamtök hafna hjúskaparvígslu samkynhneigðra í kristnum kirkjum, þar sem hún gengur gegn orði Guðs og fyrirmælum frelsarans.
Kristin stjórnmálasamtök taka afstöðu gegn hinum fráleitlega kostnaðarsömu útgjöldum ríkisins til "kynbreytingar".
Ég get ekki einu sinni byrjað að ímynda mér hvers konar svartagallsraus hefði ratað inn í þennan hörmungakafla ef ekki hefði verið athugasemd þess efni að þarna skyldi teflt út pósitífum áherslum. En þetta ku allt vera afar jákvætt og dejligt í heimi sannkristinna. En manni hryllir við þeirri hugsun um hvernig þessi kafli hefði getað litið út ef Jón Valur hefði ekki áminnt sjálfan sig um að hafa hann á jákvæðu nótunum.
Svo kemur Jón Valur að einhverjum opinberum styrkveitingum til Samtakanna 78 sem miða að því að rétta af hallann sem verður til vegna fordómarauss hans og skoðanabræðra hans:
Bannað verði að opinbert fé sé notað til að kosta útsendingu fólks úr Samtökunum 78 eða öðrum slíkum samtökum til að hafa áhrif á afstöðu unglinga í kynferðismálum; foreldrafundir fái a.m.k. neitunarvald í þeim málum ...
Mig grunar að Jón Valur hafi nú ekki verið jafn snöggur til mótmæla og andstöðu þegar Gídeón-kónarnir seildust í ríkiskassann hér í denn og snöpuðu peninga, en það var allt önnur Ella, ægilega gagnkynhneigð, karlmannleg og innblásin Guðlegu testosteróni. Það er ekki sama hver á í hlut, Guðs útvaldir eða Guðs útkastaðir!
Um ríkiskerfið segir Jón Valur:
Ríkiskerfið
Fækka ber ríkisstarfsmönnum og draga úr rekstri óarðbærra ríkisstofnana; að leggja sumar þeirra niður kemur vel til greina, en fyrst ber að kanna, hve mjög þetta kerfi hefur þanizt út á síðustu áratugum og hvort eða hverju það hefur skilað, með hliðsjón af útgjöldunum.
Þeir rétti upp hönd sem sjá fyrir sér Ríkiskirkjuna þegar talað er um óarðbærar ríkisstofnanir! Það er gott að Jón Valur skuli sjá þessa matarholu í sparnaðarmálum og mun ég styðja hann með ráð og dáð í því að skera duglega niður í þeim óarðbæra bissniss (fyrir þjóðina, altént) sem rekstur Ríkiskirkjunnar er.
Í allri þessari upptalningarþulu saknaði ég þess að það gleymdist að telja upp það sem ætti að vera aðal baráttumál Kristilega stjórnmálaaflsins, nefnilega lögbindingu þeirrar heilögu skyldu Rúv að sýna þættina um Bibleman í öll mál. Það myndi sannarlega fá unga fólkið til þess að biðja um bláu bókina í skólanum :)
PS. Og hvernig er hægt að fullyrða að Jón Valur hafi einn haldið um fjaðurstafinn við samningu téðrar stefnuskrár? Jú, hin tilgerðarlega 'z' er fangamark hans, andlegu spörðin sem koma upp um kauða. Þeir sem nenna að plægja í gegnum þetta manifesto sjá að enginn annar hefur nennt að koma að samsetningu þess því zetan ríður þar þvers og kruss um héröð.
Sveitarstjórnarkosningar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)