Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Sérfræðingur í kynlífsmálum

Postulinn PállÉg var eitt sinn bannfærður af bloggi fyrir að spyrja hvernig Páll postuli væri þess umkominn að leggja heimsbyggð línurnar þegar kemur að kynlífi. Þessi sami einstaklingur bannfærði mig síðan af öðru bloggi sem hann rekur, en það er önnur saga :)

Það eru víst til ótal tilvitnanir í postulann þar sem hann fabúlerar fram og til baka um kynlíf, en minna sést skrifað (lesist: ekkert) um hvernig hann öðlaðist sína stöðu sem sérfræðingur í lystisemdum holdsins. Páll postuli hafði t.d. uppi harðar yfirlýsingar um hversu ósæmilegt kynlíf tveggja karla væri, en það kemur hvergi fram hvernig hann komst að þessari niðurstöðu eða hvað liggur henni til grundvallar.

Mér þætti því áhugavert að sjá skýringu á því hvernig postulinn öðlaðist þessa sérfræðiþekkingu sína, enda er hann leiðandi afl í mótun skoðana milljóna kristinna um allan heim sem fylgja kennisetningum hans í blindni. Í raun á það fólk jafnvel enn meiri heimtingu en ég á því að vita þetta því það þarf að fara eftir (í orði, altént) þeim boðum og bönnum sem postulinn boðaði í öndverðu.


Um talnaspekinginn sem kunni ekki að reikna ...

TalnaspekiÉg horfði á talnaspeking í Íslandi í dag í gærkvöldi og sá hann þylja upp fyrirsjáanlegu spádóma sína þess efnis að næsta ár yrði viðburðarríkt, en að við hefðum í hendi okkar hvernig allt færi með viðbrögðum okkar. Snjall!

Það sem hins vegar sló mig var að talnaspekingurinn sagði (sjá 11:45 í myndskeiðinu) að Pýþagóras hefði komið með talnaspekina hingað vestur fyrir um 1100 árum síðan. Þetta afrek Pýþagórasar, að finna út þá flóknu aðferð að leggja saman tölur til að spá nákvæmlega fyrir um framtíðina, væri magnað eitt og út af fyrir sig. En það að hann dó fyrir um 2500 árum gerir þetta afrek Pýþagórasar að hreinu kraftaverki.

Getur verið að talnaspekingurinn hafi misreiknað sig? Nei, fjárinn hafi það! Þá væri hann líklega týpískur þristur (þ.e. manneskja sem kann ekki að reikna). Eða er það sjöa? En hann reiknar örugglega rétt þegar hann spáir, annars væru þetta ekki fræði og vísindi.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband