Aðskiljum skóla og kirkju

EinmanaÞað er vert að vekja athygli á góðri grein á visir.is, en hún hefur yfirskriftina Aðskilnaðarstefnan í skólum. Þar fara höfundar yfir það hvernig skólinn brýtur, í ákveðnum tilfellum, á mannréttindum skjólstæðinga sinna með grófum hætti þegar ákveðin börn eru tekin frá skólafélögum sínum og sett afsíðis þegar hjólað er í trúmálin á skólatíma.

Ég hef áður sagt að það er ekkert í skólastarfinu sem virkar sundrandi nema trúin. Það þarf enginn nemandi að fara afsíðis þegar stærðfræði, lestur eða skrift eru kennd. Stöku nemandi þarf reyndar að fá frí í leikfimi, en það á sér iðulega eðlilegar skýringar og þær allar afar veraldlegar. En þegar trúin er sett á dagskrá myndast gjá á milli þeirra barna sem sett eru út í horn, oft börn innflytjenda sem síst mega við því, og hinna sem eftir sitja.

Lausnin er afar einföld: skólastarf á að vera veraldlega grundvallað. Það á ekki ekki að fara með krakkana í messu og presturinn á ekki að heimsækja skólann til að spila og tralla. Það á að kenna trúarbragðafræði, en kristinfræðin er afleit tímaskekkja. Fermingarfræðslan og kynning á henni eiga ekki að vera á skólatíma, enda kemur hún skólanum ekkert við.

Trúarlegt uppeldi á ekkert erindi í skólana. Trúuðum foreldrum ætti að vera það mikið gleði- og ánægjuefni að sjá sjálfir um þennan þátt í uppeldinu. Það hefur hver sína nálgun að trúnni og þannig getur skólinn í raun ekki sinnt þessu fyrir fjöldann. Sumir trúa því að jörðin sé sex þúsund ára gömul meðan aðrir taka það ekki eins hátíðlega. Sumir trúa því að Jesús Jósepsson hafi verið eingetinn meðan aðrir telja það hálfgerða tröllasögu. Sumir trúa því að Nói hafi siglt um í örkinni sinni forðum daga meðan jörðin var hvítþvegin af synd með miklu flóði á meðan aðrir eru ekki eins sannfærðir um það :) Á þessu sést að skólinn getur einfaldlega ekki sinnt þessu hlutverki burtséð frá því hvort hann svo eigi að sinna því.

Krafan um aðskilnað ríkis og kirkju er hávær í þjóðfélaginu í dag og ekki að ósekju. Ég legg til að við byrjum á smærra skrefi; að aðskilja skóla og kirkju, börnunum okkar til heilla!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gæti ekki verið meira sammála þessu. Vel mælt.

Ríkharður 15.12.2009 kl. 19:53

2 Smámynd: Kristinn Theódórsson

Flott grein.

Kristinn Theódórsson, 15.12.2009 kl. 21:33

3 identicon

Vildi bara segja að það var vinaleið sem djálkni sá um í skóla sem strákurinn minn var í og það hafði mjög góð áhrif á hann og mér fannst það frábær þjónusta. Ef ég náði ekki upp úr honum hvað var að angra hann hringdi ég í djáknann og hún ræddi málin við hann.

Dagrún 15.12.2009 kl. 22:36

4 Smámynd: Kristinn Theódórsson

Dagrún

Mig langar að spyrja þig:

Heldur þú að það hafi verið persónuleiki djáknans sem hjálpaði, eða boðskapurinn?

Kristinn Theódórsson, 15.12.2009 kl. 22:41

5 Smámynd: Óli Jón

Dagrún: Ég efast ekki um að drengurinn þinn hafi haft gott af því að tala við djáknann og vona að það muni hjálpa honum í framtíðinni, ef þörf krefur.

Hins vegar gætir þú auðveldlega farið beint til djáknans í þá kirkju hvar hann starfar án milligöngu skólans, er það ekki? Myndi drengurinn þinn ekki hafa sama gagn af þótt skólinn væri ekki milliliður þarna?

Þá er oft talað um að Vinaleiðin sé ókeypis þjónustu Ríkiskirkjunnar. Hún er þó langt frá því að vera ókeypis, enda iðulega fjármögnuð með skattfé almennings. Myndi drengurinn þinn hafa sama gagn af því að ræða við félagsfræðing, sálfræðing eða geðlækni sem hefði sömu viðveru og djákninn?

Óli Jón, 15.12.2009 kl. 22:50

6 Smámynd: Finnur Hrafn Jónsson

Útilokað er að öðlast skilning á íslensku samfélagi án þess að kristin trú og kristin gildi komi við sögu. Að ætla sér að kenna fólki um íslenskt samfélag án þess, er eins og að ætla að kenna einhverjum eðlisfræði án þess að læra stærðfræði fyrst.

Þar fyrir utan er ég sammála því að boðun trúar á ekki heima í skólum enda hef ég lítið orðið var við að það ætti sér stað.

Finnur Hrafn Jónsson, 15.12.2009 kl. 23:59

7 Smámynd: Óli Jón

Finnur: Undir engum kringumstæðum er nauðsynlegt að hafa kristna trú í huga ef maður ætlar að öðlast skilning á íslensku samfélagi. Augljóslega finnst kristnu fólki það betra, en við hin þurfum ekkert á því að halda. Hvað kristnu gildin varðar, þá eru þau bara samtíningur af góðum mannasiðum sem voru til löngu áður en kristni kom til sögunnar og verða í heiðri höfð löngu eftir að hún hverfur. Mér finndist þó áhugavert að sjá þig skilgreina þessi kristnu gildi eins og þú upplifir þau og skora á þig að koma með útlistun á þeim helstu. Ef það gerist, þá bið ég þig um að sleppa upptalningu á því sem við teljum öll vera almenna og góða mannasiði og halda þig við þau gildi sem eru sértæk fyrir kristni.

Að því sögðu þá tel ég rétt að fræða skólabörn um áhrif kristni hér á öldum áður, enda voru þau umtalsverð. Hins vegar er það fljót afgreitt, ef rétt er að málum staðið, og þarf ekki margra ára kennslu til. Áhrif kristni í íslensku samfélagi eru hverfandi í dag, sem er vel, og því þarf þetta fag ekki að hafa mikið vægi í skólum. Réttara væri að nýta tímann til að kenna t.d. lífsleikni sem er mun hagnýtara nám fyrir börn og unglinga.

Hvað varðar það að boðun trúar eigi sér ekki stað í skólum, þá er það því miður kolrangt hjá þér. Prestar koma í heimsókn í leikskóla og syngja "Jesú er besti vinur barnanna" með litlu börnunum. Börn í leik- og grunnskólum eru teymd í messur í tíma og ótíma. Ríkiskirkjan reyndi að koma fulltrúum sínum að í skólum með Vinaleið. Ótal mörg önnur dæmi eru til.

Þannig er þetta bara.

Óli Jón, 16.12.2009 kl. 00:27

8 Smámynd: Finnur Hrafn Jónsson

Því miður kann ég ekki að telja upp kristin lífsgildi sem ekki eru í góðu samræmi við það sem við teljum vera almenna og góða mannasiði. Fyrir mér er það sönnun þess að kristni hefur mikil áhrif samfélag okkar. Ef ekki hefði verið kristin trú á Íslandi finnst mér líklegt að þessi gildi væru öðruvísi.

Finnur Hrafn Jónsson, 16.12.2009 kl. 00:50

9 identicon

Ísland er kristið land rétt eins og mörg önnur lönd kenna sig við aðra trú. Hver er tilgangurinn að breyta þessu? Ekki dettur mér í hug, að fara fram á, að þessu verði breytt annars staðar.  Kristinfræði er t.d. kenndi í grunnskólum Danmerkur án vandræða.

Um leið að farið er að hreyfa við þessum málum, þá óttast ég að ýmislegt fari úr skorðum á samfélaginu. Það er ekki eins og kristnin sé eitthvað hlutlaust afl í samfélaginu.  Menn verða að virða trúarbrögð þeirra sem hafa byggt upp landið, þau gildi sem fyrir eru og þær hefðir sem við byggjum okkar samfélag á. Það hefur ekkert með ofríki gagnvart öðrum að gera.

Afhverju eigum við sem kristnir alltaf að beygja okkur fyrir innflytjendum og öðrum sem ekki eru kristnir. Kristnir menn eru  til að mynda ofsóttir í múslimalöndum, í þeirra augum erum við villitrúarmenn.

En mér þykir leitt  Finnur, að þú hafir ekki upplifað gleðina í trúnni, þann kærleik sem boðaður, jafnræði á milli manns og konu í nútíma kristni.  Þú getur ekki bara afgreitt málið að þetta sé samtíningur mannsiða, lífið er nú flóknara en það.

"þannig er þetta bara" Megi Guð blessa þig.  

Hrannar 16.12.2009 kl. 11:19

10 identicon

Ég á einn tíu ára gutta sem er í barnaskóla í Rvk. 

En strákurinn minn er svo "óheppinn" að ég skuli vera svo sérvitur að standa utan trúarbragða.  Ekki vegna þess að ég er ekki trúaður, heldur vegna þess að mér finnast trúarbrögð ekki endurspegla raunverulega trú.  

Og vegna þessa hef ég mjög ákveðnar skoðanir í þessum málum, og vil ekki að strákurinn fái kristna innrætingu í skólanum.  Hér á víst að ríkja trúfrelsi.

Í skólanum hjá stráknum er í gangi Orwelusaráætlun gegn einelti.  Þar segir meðal annars að enginn skuli dreginn úr hópnum því það geti stuðlað að einelti.  En svo er það svo skrýtið, að ef ég er ósáttur við trúarbragðainnrætinguna sem er svo sannarlega stunduð í skólanum (sem lýsir sér með kirkjuheimsóknum, heimsóknum frá Gídeonfélögum og kristnum bókagjöfum, auk þess sem hallar á umfjöllun um trúarbrögð sem eru ekki kristin.), þá er svar skólans það að barnið skuli dregið úr hópnum og sett út í horn á meðan.

Ég kvartaði undan þessu við skólann.  Skólastjórnendur tóku langan tíma í að svara þessu, og svöruðu þessu með skætingi þegar þeir loksins gerðu það.  Stuttu seinna ræðst skólastjóri skólans á drenginn minn, sparkar undir borð sem hann situr við svo hann fær borðið framan í sig og fær blóðnasir.  

Ég kvartaði undan þessu við Menntasvið Reykjavíkurborgar.  Þau gerðu ekkert í málinu.  Skólastjórinn situr enn á sínum stað, og stráknum mínum er enn boðið að sitja í horninu ef ég er eitthvað ósáttur.

 Sjálfur lenti ég í einelti á minni skólagöngu, og ég upplifi hluta af því aftur núna í gegnum menntastofnanir borgarinnar.   

Þess má einnig geta að skólastjóranum þykir mjög mikilvægt að börn alist upp við kristið siðgæði.  Persónulega hef ég áhyggjur af siðferði skólastjórans.

Árni Sveinn 16.12.2009 kl. 11:35

11 Smámynd: Óli Jón

Finnur: Þetta eru algeng svör þegar spurt er um hver hin raunverulegu kristni gildi eru, þ.e. að það sé ekkert sem í raun aðgreini þau frá almennum og góðum mannasiðum. Þessi gildi eru þannig ekkert sér kristin í sjálfu sér, þau eru bara almenn. Kristnir hafa bara verið svo séðir í gegnum tíðina að eigna sér þau án þess að eiga í raun nokkurt sérstakt tilkall til þeirra.

Hrannar: Það hefur ekkert farið úr skorðum þótt áhrif trúarinnar fari ört dvínandi. Lífið gengur sinn vanagang þótt trúin sé á undanhaldi og við, sem þjóð, munum halda sjó þótt þeirri þróun vindi áfram.

Þú segir að kristnir menn séu ofsóttir í löndum múslima, en er þessi málflutningur þinn nokkuð annað en ofsóknir af þinni hálfu á hendur þeim? Það kemur vel fram í þessum orðum þínum hversu sundrandi afl trúin er því hér er kristnum stillt upp gegn múslimum. Það hefur ekkert að gera með manneskjurnar bak við trúna, bara trú A gegn trú B. Ef ekki væri fyrir trú, þá værum við bara öll manneskjur, óbundnar af alda gömlum boðum og bönnum, sem gætu þrifist mun betur saman en raun ber vitni. En vegna þess að ákveðinn hluti fólks er hokinn af trúarlegum skyldum, þá fer allt í bál og brand eins og sést best af þínum orðum.

Ég reikna með að þú sért að ávarpa mig í næstsíðustu málsgreininni, en ekki Finn. Mér sýnist hann vera staðfastur í sinni trú og á þessi orð ekki skilin. Ég get vel afgreitt málið þannig að kristið siðgæði sé bara samtíningur góðra og almennra mannasiða. Þeir voru viðhafðir löngu áður en kristnin kemur til skjalanna og á hún því ekkert sérstakt tilkall til þeirra.

Þá tek ég fagnandi við blessun Guðs þíns, en reikna svo sem ekki með að hún verði mér að nokkru gagni.

Þannig er þetta bara :)

Óli Jón, 16.12.2009 kl. 12:28

12 identicon

Frásögn Árna Sveins er sláandi. Ég hef sjálfur þurft að standa í þessu stappi. Nýlega sendi ég stjórnendum skólans sem börnin mín sækja póst þar sem ég mótmælti kirkjuheimsóknum. Þar sagði ég m.a.

Ég er ekki hrifinn af því að dóttir mín taki þátt í trúariðkun safnaðar sem grundvallar trú sína m.a. á heimsendatrú:

"Nýlega las sr. Bolli P. Bollason yfir söfnuði sínum: 'Já, Jesús kemur fyrr en varir á skýi og mun dæma lifendur og dauða eins og við kristið fólk höfum játað og játum enn'. Bolli lét þessi orð falla í prédikuninni 'Lausn yðar er í nánd', sem hýst er á tru.is, og bætti svo við að þá verður 'ekki einvörðungu um að ræða friðsama birtingu jólabarnsins'"; http://www.raunvis.hi.is/~steindor/heimsendir.html

Ég kæri mig heldur ekki um að dóttir mín umgangist fulltrúa safnaðar sem segja:

"trúleysi ógnar mannlegu samfélagi, viðskiptum og stjórnmálum ... Valið stendur milli trúar og trúleysis á vettvangi hversdagsins, sem og viðskipta og stjórnmála. Ég er ekki í vafa um að flestir myndu að athuguðu máli velja trúna";
http://www.raunvis.hi.is/~steindor/biskup.html

"Ef Guð hverfur úr lífi fólks og þjóða er hætta á að á nokkrum kynslóðum hverfi gildin, hverfi munur góðs og ills, hverfi siðgreind fólks og þar með verði allt flatt. Allt flýtur";
http://www.raunvis.hi.is/~steindor/sidur.html

"Málið er ekki 'bara' að elska Guð eða 'bara' náungann, heldur er hvort um sig háð hinu. Án elskunnar til Guðs er erfitt að koma fram við fólk af kærleika";
http://www.raunvis.hi.is/~steindor/sjalfhverfur.html

"Hættan sem stafar af því að afneita Guði virðist samkvæmt sr. Birgi vera hnignun menningarinnar, en merki hennar 'kemur helst fram, þegar við reynum að sníða trúna að eigin sjálfhverfu, duttlungum og hroka. En þannig verðum við einmitt hluttakendur heimskunnar. Heimskinginn segir: enginn Guð'"; http://www.raunvis.hi.is/~steindor/heimska.html

Ég kæri mig ekki um að dóttir mín umgangist einstaklinga sem halda því fram á opinberum vef þjóðkirkjunnar ég sé hættulegur samfélaginu; ég hafi ekki siðferðisvitund eða kærleika; að ég sé heimskur. Allar þessar vísanir eru úr messum Þjóðkirkjunnar og vísa slóðirnar í blaðagreinar þar sem ég hef brugðist við þeim.

Hér sjáum við dæmi þess að undir hinu "góða" kristna siðgæði kraumar fyrirlitning á þeim sem ekki eru sammála því sem stendur í Biblíunni. Af þessum sökum finnst talsmönnum kristni líklega ekkert tiltökumál að skilja börn þeirra sem ekki eru sammála þeim eftir "út í horni", eins og Árni Sveinn kemst að orði.

Steindór J. Erlingsson 16.12.2009 kl. 13:12

13 identicon

Það er alveg ljóst að foreldrar sem hlífa ekki börnum sínum við áróðri trúarbragða, að þeir foreldrar eru ekki að virða börn sín.. og alls ekki að bera umhyggju fyrir framtíð þeirra og annarra á jörðinni.

Það er algert hneyksli þegar maður kemur heim úr vinnu og krakkarnir komnir með biblíu og tala um ferðalag í geimgaldrakarlsstofnun ríkisins... sick dæmi

DoctorE 16.12.2009 kl. 13:12

14 identicon

Kærar þakkir fyrir þessa mjög svo nauðsinlegu umfjöllun.

Við erum öll að berjast, hvert í sínu horni gegn virðingarleysi þjóðkirkjunnar og fjölmargra grunnskóla á sjálfsögðum mannréttindum þeirra sem standa utan þjóðkirkjunnar. Sumir myndu kalla þetta mannréttindabrot og þar með ofbeldi!

knús og kram :) 

Björk

Björk Sigurgeirsdóttir 16.12.2009 kl. 14:54

15 identicon

Ég tek undir að banna trúboð í skólum... ég vil að kennd sé trúarbragðasaga og brot kennd úr textum stærstu trúarbragðanna til að veita innsýn inn í þennan heim sem annan, rétt eins og gríska heimspeki.

Ekkert trúboð.

Ólafur í Hvarfi 16.12.2009 kl. 15:24

16 identicon

Óli, ég er sammála þessu, að viðbættri kennslu um trúleysi, efahyggju og deisma.

Steindór J. Erlingsson 16.12.2009 kl. 15:48

17 Smámynd: Magnús V. Skúlason

Árni Sveinn, ef kennari sem kennir stjörnufræði í grunnskóla segir að loftsteinn eigi eftir að lenda á jörðinni og valda eyðingu alls mannkyns, er hann þá ekki þér að skapi?

Þeir einu sem eru að tala um trúboð í skólum landsins eru trúleysingjarnir sjálfir, þessi blæti-þörf þeirra á trúboð er í sjálfu sér rannsóknarefni útaf fyrir sig!

Ef kennari segir barninu mínu að þegja ef það er með hávaða og segja að hann eigi ekki að trufla aðra nemendur, er kennarinn þá ekki með sjálftökuinngrip í uppeldi barnsins míns?

Ef kennari er kristinnar trúar og segir nemendum sínum að hætta að stríða öðrum nemendum og að þeir eigi að bera virðingu fyrir þeim, er hann þá að beita kristilegu uppeldi?

Þeir einu sem er á villigötum í þessari umræðu eru þeir sem eru að fara fram á "aðskilnað" trúar og skóla, það er eins og að krefjast aðskilnaðar Fellahverfisins og súrefnis :)

Magnús V. Skúlason, 16.12.2009 kl. 16:12

18 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Þeir einu sem eru að tala um trúboð í skólum landsins eru trúleysingjarnir sjálfir, þessi blæti-þörf þeirra á trúboð er í sjálfu sér rannsóknarefni útaf fyrir sig!

Þetta er einfaldlega ekki rétt, fjölmargir trúmenn eru sömu skoðunar og við varðandi trúboð í skólum.

Þegar saga baráttunnar fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju er skoðuð í öðrum löndum er sláandi að fulltrúar lítilla trúfélaga eru þar iðulega í flokkið með trúleysingjum.  Það eru nefnilega ekki bara trúleysingjar sem kunna að meta trúfrelsi.

Þeir einu sem er á villigötum í þessari umræðu eru þeir sem eru að fara fram á "aðskilnað" trúar og skóla, það er eins og að krefjast aðskilnaðar Fellahverfisins og súrefnis :)

Magnús, skólar á Íslandi voru í mun minni tengslum við kirkjunar fyrir tuttugu árum heldur en nú.  Þau "tengsl" sem um er að ræða eru frekar nýtilkomin.

Matthías Ásgeirsson, 16.12.2009 kl. 16:38

19 Smámynd: Óli Jón

Ágæti Magnús: Kemur það virkilega á óvart að trúleysingjar tali gegn trúboði í skólum þegar m.a.s. trúfólk hefur sjálft tekið undir slíkt? Nú þykist ég vita að þú eigir barn, hvað finndist þér um ef kennari í skólanum myndi allt í einu fara að ræða við það um kosti trúleysis og hversu mikið frelsi fylgir því að vera t.d. ekki stöðugt þjakaður af iðrun og hræðslu við reiði Guðs? Er þá ekki betra fyrir alla að ræða bara alls ekki trú eða trúleysi?

Hvað varðar fyrstu málsgreinina og þær þrjár síðustu hjá þér, þá eru þær ekki svaraverðar enda fádæma undarlegar.

Það sem veldur mér alltaf jafn mikilli undran í þessum málum er hversu latir margir kristnir foreldrar eru þegar þeir vilja allt gera til þess að komast undan því að fræða börn sín um þá trú sem þeim er kærust. Frekar vilja þeir fá aðila úti í bæ til þess að sjá um þetta fyrir þá. Mig rennir reyndar í grun að þetta sama fólk viti innst inni að það er rangt að innræta ungum börnum trú þegar þau eru hvað móttækilegust og því vilji þeir fá aðra til að sjá um það verk. Getur trú verið persónuleg ef hún er innprentuð í viðkomandi með móðurmjólkinni, stærðfræðinni og stafsetningunni? Ef þetta væri jafn gleðilegt og þetta fólk segir þetta vera, þá myndi það vilja sjá um þetta sjálft.

En það er bersýnilega ekki málið :)

Óli Jón, 16.12.2009 kl. 16:39

20 identicon

Magnús:  Ég verð nú að viðurkenna að ég skil ekki alveg hvert þú ert að fara með þessum loftsteini. 

Ef ég kæmist að því að kennari barnsins míns væri að hræða börnin með sögum um að loftsteinn myndi eyða hér öllu, þá myndi ég kvarta yfir þeim kennara já.

En ég skil ekki hvað það kemur málinu við...  Myndir þú ekki kvarta?

Ef þú hefðir lesið textann sem ég skildi eftir, sérðu það að ég kalla sjálfan mig trúaðan, vertu ekki að blanda ætluðu trúleysi mínu í þetta.  

Finnst þér svo sjálfum rétt að börnin fái stjórnmálainnrætingu í skólanum líka.  Held að fólk sem kysi t.d. samspillinguna væri ósátt við að hafa eingöngu innrætingu frá fulltrúum sjálftökuflokksins í skólanum.

Trúmálin eru nefnilega svoldið eins og stjórnmálin.  Lífsskoðanir sem eiga ekki heima í skólum.  

Árni Sveinn 17.12.2009 kl. 10:22

21 identicon

Ísland er ekki kristið land.. ísland er íslenskt land þar sem íslendingar búa...  við getum verið trúfrjáls eða trúuð.. en fyrst og fremst erum við íslensk þjóð... hver sá sem segir annað er eiginlega óvinur íslands... staðreynd.

DoctorE 17.12.2009 kl. 10:55

22 identicon

Já, mikið rétt hjá þér DoktorE.

 Þetta er nú ein af ástæðunum fyrir þessu "væli".  Hér ríkir nefnilega trúfrelsi.

Nema trúfrelsið er svoldið eins og "allt uppi á borðum" hjá ríkisstjórninni, það er talað um það en í raun er ekkert á borðunum og trúfrelsið virðist ekki eiga við fyrr en við 18 ára aldur.

Árni Sveinn 17.12.2009 kl. 11:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband