Þjóðkirkjan - geistlegt fasteignafélag?

kirkjanÍ Kompás-skammti kvöldsins var merkilegt að sjá forstjóra 'Þjóðkirkjunnar' verja það gegndarlausa magn fjár sem árlega er ausið í þessa stofnun. Hann nefndi m.a. að 'Þjóðkirkjunni' væri falið að sjá um 200 hús og byggingar á þjóðminjaskrá um allt land og þótti mér það býsna merkilegt því ég hef aldrei séð 'umsjón fasteigna' nefnda sem eitt af kjarnaverkefnum hennar. Er það ekki við hæfi að Þjóðminjasafnið fengi þá fjármuni sem ætlaðir eru til þess arna og taki verkefnið að sér, enda má ætla að þar sé innanborðs betri þekking og kunnátta en innan 'Þjóðkirkjunnar'. Jesús Jósepsson var víst sonur trésmiðs, en það gerir ekki þjóna 'Þjóðkirkjunnar', fullmektuga fulltrúa hans, hæfa til þess að sjá um svona menningarverðmæti enda eru húsasmíðar og fasteignaumsjón líkast til bara valfög í guðfræðinni.

Þá nefnir biskup Vinaleiðina sem tilboð 'Þjóðkirkjunnar' og innlegg hennar í mikilvægum málaflokki. Ég tel það sama eigi við hér og gildir um umsjón fasteigna; er ekki betra að beina fjármunum til félagsþjónustunnar eða annarra hæfra aðila þar sem hægt er að fá sérfræðinga (sem ekki koma til fundar við krakkana okkar hoknir af trúboðaskyldum) til að taka þetta þarfa verkefni að sér? 'Þjóðkirkjan' tekur að sér að skilgreina verkefni fyrir sjálfa sig til að vernda hagsmuni sína meðan hún er í raun að taka fé frá stofnunum sem eru mun hæfari til viðkomandi starfa.

Í ljósi ofangreinds er reyndar gaman að velta fyrir sér 'tilboðs' líkingu biskups í þessu samhengi. Ég líki þessu 'tilboði' hans við það að ég færi í Bónus þar sem starfsmaður tæki af mér tíuþúsundkall við innganginn, en leyfði mér svo að velja úr pínulítilli tilboðskörfu það sem mér litist á óháð því hvort þar væri eitthvað sem mér litist á eða hefði þörf fyrir. Það er harla aumt tilboð sem neytandinn er þegar búinn að borga dýru verði óháð því hvort hann vill eða þarfnast þess sem í boði er.

Íslendingar eru í síauknum mæli að hafna 'Þjóðkirkjunni' með því að gera sér sérstaka ferð í Borgartúnið og skera á tengsl sín við hana. Ég þykist vita að þeir Íslendingar sem vilja ekkert með 'Þjóðkirkjuna' hafa séu umtalsvert fleiri en staðtölur segja til um, en flestir hafa bara hreinlega ekki fyrir því að skjótast í Borgartúnið og ganga frá skilnaðinum. Er ekki réttara að fólk þurfi að skrá sig í 'Þjóðkirkjuna'? Okkur þætti yfirgengilegt ef öll börn væru skráð í Val eða Víking við fæðingu, hví gildir ekki hið sama um 'Þjóðkirkjuna'?

Það er mitt mat að þjóðin ætti að sameinast um að gera tilraun í eitt ár. Skráum alla úr 'Þjóðkirkjunni' og í Háskóla Íslands. Þeir sem nú þegar hafa skráð sig úr 'Þjóðkirkjunni' hafa þegar gefið sitt svar og því eru þeir undanskildir í þessari tilraun. Skoðum svo eftir árið hversu margir hafa haft fyrir því að skrá sig í 'Þjóðkirkjuna', en það er mat mitt að þeir yrðu nokkuð færri en þeir örfáu sem lögðu leið sína til Þingvalla hér um árið á kómískasta flopp Íslandssögunnar. Þar kæmi glögglega í ljós hverjir tækju 'tilboði' 'Þjóðkirkjunnar' og þá væri hægt að skera úr hvort hún beri nafn með rentu eða hvort hún sé bara sá sértrúarsöfnuður sem ég tel mig vita að hún í raun er.

Þetta veit forstjóri 'Þjóðkirkjunnar' mætavel og því reynir hann finna kompaníinu framtíðarverkefni svo aurarnir haldi áfram að rúlla inn þótt sauðirnir hverfi frá jötunni. Það skiptir litlu þótt þessi verkefni séu ekki í neinum tengslum við áður skilgreinda kjarnastarfsemi 'Þjóðkirkjunnar'; hún getur vel verið fasteignafélag eða félagsþjónusta. Áhugavert verður að sjá hvar 'Þjóðkirkjuna' ber næst niður í verkefnavali sínu. Flugumsjón? Leigubílaakstur? Laxeldi?

Spyr sá sem ekki veit!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góðar athugsemdir, ástæða til að fylgja þeim enn frekar eftir.

kveðja Jón Bjarni

Jón Bjarni 20.2.2007 kl. 15:19

2 identicon

Flott hugleiðing hjá þér Óli Jón

Kveðja, Steindór J. Erlingsson 

Steindór J. Erlinggson 21.2.2007 kl. 15:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband