Metan

Það er prýðileg grein á baksíðu Moggans í dag þar sem talað er um að nú myndist nægilegt magn metans í sorpurðunarstaðnum í Álfsnesi til að knýja alla bíla í Mosfellsbæ. Þetta eru í senn góðar og slæmar fréttir. Góðar sökum þeirra möguleika sem þetta gefur á að knýja 3-4 þúsund bíla með metani og slæmar vegna þess að í dag eru aðeins 55 bílar á götum Reykjavíkur sem nýta þetta frábæra eldsneyti. Málið er nefnilega þannig með metanið að það mengar ekki neitt þegar það er notað sem eldsneyti fyrir bíla! Alls ekkert! Ekki baun í bala! Nú kann einhver að segja að þetta sé algjör vitleysa, en þetta leggst þannig út:

  • Metangasmyndun er óumflýjanleg aukaafurð sorpurðunar
  • Sorpu er skylt að safna saman og brenna því metangasi sem myndast í stað þess að það farið út í andrúmsloftið
  • Ef gasið er notað á bíla verður til sama mengun og ef gasinu væri brennt beint á söfnunarstað

Ergó, mengunin verður til hvort eð er! Spurningin er bara sú hvort hún komi til vegna algjörlega gagnslauss bruna á sorpurðunarstað eða hvort hún komi í stað bensínmengunar frá bílum?

Í dag er það afar hagkvæmt að reka metangasbíl. Skrifari prófaði um daginn metanbílinn VW Touran og reyndi það á eigin skinni að hann er afar léttur á fóðrum. Hverjir 100 kílómetrar á þessum 7 manna lúxusbíl kostuðu tæpar 700 krónur. Þannig hefðu 450 kílómetrarnir kostað um 3.150 krónur og hver man eftir því að hafa síðast fyllt á stóran, sjö manna bíl fyrir rétt rúmlega þrjú þúsund kall? Metanbílar keyra því ekki aðeins mengunarlausir (sbr. ofangreinda röksemd), heldur eru þeir mun hagkvæmari í rekstri. Ekki spillir fyrir að í dag er gefinn afsláttur af aðflutningsgjöldum sem nemur 350 þúsund krónum sem gerir þá ódýrari í innkaupum líka.

Ég skora á tveggja bíla fjölskyldur sem fara daglega um Ártúnsbrekkuna að íhuga það að skipta öðrum bílnum út fyrir metanbíl. Þannig er hægt að njóta þess að keyra innanbæjar í fullkominni sátt við náttúruna á metanbílnum, en nota bensínhákinn þegar fara skal út fyrir borgarmörkin. Þar er nefnilega komið að helsta annmarkanum í metanvæðingunni, það er aðeins ein áfyllingarstöð og er hún á Höfðanum. Staðsetning þessarar stöðvar markar þannig þann ferðaradíus innan hvers metanbílar geta athafnað sig. Fyrir tveggja bíla fjölskyldur er þetta ekki vandamál.

Ég hvet alla áhugasama til að prófa að skoða metanbíl, ég þykist viss um að þeir hjá Heklu taki vel á móti áhugasömum. Það finnst ekki nokkur munur á honum og bensínbíl í akstri, munurinn liggur í töluverðum sparnaði og hreinna andrúmslofti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband