Hvenær eiga kristin gildi ekki við?

Ef mér telst rétt til þá var ályktun allsherjar- og menntamálanefndar samþykkt fyrr í dag, en í henni er að finna eftirfarandi kolamola:

Trúmál
Sjálfstæðisflokkurinn telur að kristin gildi séu þjóðinni til góðs nú sem aldrei fyrr og að hlúa beri að kirkju og trúarlífi. Sjálfstæðisflokkurinn vill standa vörð um þjóðkirkju Íslands samkvæmt stjórnarskrá.
Landsfundur telur mikilvægt að ríkisvaldið standi full skil á félagsgjöldum (sóknargjöldum) þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga. Öll lagasetning skal ávallt taka mið af kristnum gildum og hefðum þegar það á við.

Í fyrri málsgreininni er talað um að 'kristin gildi séu þjóðinni til góðs nú sem aldrei fyrr', en í þeirri seinni er talað um að hyggja eigi að þessum gildum 'þegar það á við'.

Líklega þarf maður að vera ofsalega vel og innilega kristinn til þess að skilja þetta. Skilja að þótt kristin gildi séu frábær, æðisleg, geggjuð og best í heimi, þá skuli bara hafa þau að leiðarljósi þegar hentar, þegar það á við, þegar aðrir alvöru hagsmunir eru ekki í myndinni. Ef ég vissi ekki betur, þá myndi ég segja að það sé meiri pólitískur fyrirvarafnykur af þessari niðursuðu en einlægur vilji til þess að ganga erinda Drottins. En hvað veit ég, sem trúi ekki á himnadrauginn. Þetta hlýtur að vera eitthvað sem rennur upp fyrir manni þegar maður kynnist Guði og heyrir hana tala í fyrsta sinn.

Landsfundarfulltrúar! Gangið á Guðs vegum ... en bara þegar það hentar :)

PS. Það er gaman að sjá einkaframtaksflokkinn slá vendilegri skjaldborg um trúna. Líklega vita dátar hans sem er að trúin getur ekki lifað nema í öndunarvél ríkisins svona eins og Jesús Jósepsson spáði fyrir í denn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir góða grein, sjálf er ég ekki sköpunarsinni, trúi samt á að í upphafi hafi orðið "blossi"  þ.e.a.s  sprenging frá öðrum heimi sem hefur skapað jörðina okkar sem þ.a.l.  hefur skapað lífríki okkar :)    Við þurfum þess vegna ekki að fara langt til að sanna tilvist okkar,  tökum dæmi sem lífsýni sem hafa verið tekin frá nálægum plánetum :) 

Lotta 23.2.2013 kl. 21:47

2 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Þetta merkir að kristin gildi eiga að gilda við þegar þau og gróða- og fjármálabrall hverskonar fara saman. Ef ekki verða kristnu gildin einfaldlega að víkja fyrir mikilvægari atriðum.

Þetta minnir á konuna sem lagði karlinum sínum  reglurnar. "Þegar við erum sammála mátt þú ráða," - sagði hún, - "en þegar við erum ósammála þá ræð ég!"

Axel Jóhann Hallgrímsson, 23.2.2013 kl. 22:44

3 identicon

Þetta er eins og að lofa því að þeir muni örugglega kannski hafa kristin gildi í huga, hahaha!

Björn 24.2.2013 kl. 00:50

4 identicon

Þú ert ekki sérstaklega skarpur, er það?

Kristin gildi eru ekki það sama og að byggja lagasetningu á biblíunni.  Kristin gildi eru m.a. að koma fram við aðra eins og þú vilt að aðrir komi fram við þig, dæmið og þér munið dæmdur verða, sá ykkar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum.

Þú getur svo borið þessi gildi saman við þá flokka sem kalla sig feminíska, þar sem þessum gildum er snúið á hvolf, hagaðu þér eins og svín í krafti laganna, dæmdu og gríttu og þér verður hampað sem hetju á næsta fundi mannfyrirlitníngarfélagsins

Bjarni 24.2.2013 kl. 01:51

5 Smámynd: Kristin stjórnmálasamtök

Menn leika sér hér að því að mistúlka orð eins og þeim sjálfum hentar.

En þessi setning:

"Öll lagasetning skal ávallt taka mið af kristnum gildum og hefðum þegar það á við,"

hún á augljóslega við, að þegar inntak lagareglna snertir siðræn álitamál eða trúarleg efni (ekki t.d. samgöngu- eða byggingamál, viðhald íslenzka kúastofnsins eða lagningu rafstrengja!), þá beri að hafa hliðsjón af og taka mið af kristinni hugsun og frumreglum.

Er þetta nokkuð erfitt að skilja, strákar?

-- Jón Valur jensson.

Kristin stjórnmálasamtök, 24.2.2013 kl. 02:01

6 Smámynd: Óli Jón

Bjarni: Allt þetta sem þú nefnir eru almennir mannasiðir sem tíðkuðust í stórum samfélögum fólks löngu, löngu áður en kristin trú var hönnuð, þróun og smíðuð. Höfundar kristninnar 'stálu' þessum gildum, enda höfðu þeir séð að þau virkuðu vel, og gerðu þau að sínum, en geta ekki gert neina réttmæta kröfu til þeirra. Vissuleg er það vel að þessir menn, því konum var ekki treyst til þess að koma nálægt þessari smíði, skyldu velja þessi gildi, en það breytir ekki því að þeir gátu ekki eignað sér þau þá frekar en að þú getir eignað þér þau núna í skjóli þess að þú teljir þig kristinn, sem ég reikna fastlega með að þú gerir.

Það hentar þér því ekki vel að tala um skerpu því þú virðist vera afar sljór, kristna greyið mitt. En það er nú reyndar kostur þegar menn þurfa að loka augum og neita að sjá það sem satt er og rét. Þá er aldeilis gott að vera ögn sljór því þá er efinn ekki eins nagandi!

Óli Jón, 24.2.2013 kl. 02:01

7 Smámynd: Óli Jón

Kristni þjóðarflokkurinn, betur þekktur sem Jón Valur Jensson: Munu agentar Kristna þjóðarflokksins fara svona þægilega með kristilegu gildin, komist þeir á þing? Nær vilji Guðs þannig ekki til málefna kúa, vegagerðar eða byggingamála?

Hvað með fataiðnaðinn? Nú hefur Biblían t.d. að geyma mjög ákveðnar skoðanir á efnum í fatnaði, mis gáfulegum að vísu, en skoðanir og fyrirmæli þó? Munu kristileg gildi eiga erindi ef fjallað verður um slík mál?

Hvað með matvælaframleiðslu, fyrir utan þau mál er lúta að kúm en við vitum nú að þau falla ekki undir kristilegt siðferði eða gildi? Nú hefur Biblían að geyma öfgakenndar og nákvæmar skoðanir sem snerta nokkra þætti matvælaframleiðslunnar. Munu Krossmenn Íslands gefa henni frí í slíkum umræðum eða hafa hana uppi á borði?

Við vitum auðvitað öll að þú, sem mögulegur agent Kristna alþýðusambandsins, munt berja Biblíunni í borð ef málefni einhleypra kvenna eða samkynhneigðra ber á góma á Alþingi. Er ekki rétt til getið að þið í Kristilega stjórnmálaklúbbnum teljið þetta þau mál sem helst falla undir lögsögu kristninnar?

Kristilega þjóðarbandalagið, lesist: þú, virðist alveg sátt við að gefa Guði frí í ýmsum málum og Sjálfstæðisflokkurinn virðist sammála. Kannski verður sá gamli bara hvíldinni feginn enda líklega orðinn dauðþreyttur og hundleiður á öllu bænakvakinu á Íslandi sem snertir einhleypar konur og homma!

Óli Jón, 24.2.2013 kl. 02:20

8 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Er ekki alveg örugglega árið 2013 eða hefur gleymst að trekkja upp dagatalið í Valhöll?

Jón Steinar Ragnarsson, 24.2.2013 kl. 02:31

9 Smámynd: Óli Jón

Jón Steinar: Ætli galdrabrennur verði ekki á borðinu þegar fjallað verður um refsingar í sakamálum.

Óli Jón, 24.2.2013 kl. 02:33

10 identicon

Nei, galdrabrennur bara fyrir nornir, visindamenn og homma. Audvitad.

laus 24.2.2013 kl. 02:37

11 identicon

Það er slæmt að stjórnmálum og trú skuli ruglað svona saman.

Trúfrjáls 24.2.2013 kl. 03:05

12 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Nú mun þetta trúargildarugl Sjallana vera vera brot á 64. gr. gildandi stjórnarskrár. Þeir kunna þá ekki stjórnarskránna, sem ekki má breyta, betur en þetta.

En Jón Valur hvort vilt þú að ráði för stjórnarskráin, sem þú hefur varið með oddi og egg, eða landsfundur Sjálfstæðisflokksins? Ætla kristin stjórnmálasamtök að bjóða fram í vor? Eða eru þau eitt alsherjar brot á stjórnarskránni?

Axel Jóhann Hallgrímsson, 24.2.2013 kl. 10:58

13 Smámynd: Kristin stjórnmálasamtök

Galdrabrennurnar hér á 17. öld verða ekki réttlættar með kristinni trú eða orðum Jesú, ekki frekar en margfalt fleiri fjöldaaftökurnar á fólki vegna hórdóms og sifjaspella samkvæmt Stóradómi, sem hér var í gildi 1563/4 til 1838 eða lengur.

Óli Jón, þetta "svar" þitt er fullt af útúrsnúningum, ekki vert svars.

Axel Jóhann, það var ekkert verið að leggja til mismunun á milli einstaklinga, þótt kristnum gildum verði fylgt í lagasetningu.

Og þótt ég skrifi hér, er ég ekki = Kristin stjórnmálasamtök. Þau eru góður hópur manna, sjá vefsíðuna okkar. ––JVJ.

Kristin stjórnmálasamtök, 24.2.2013 kl. 13:34

14 Smámynd: Ingibjörg Axelma Axelsdóttir

Núúúúh? Er ekki verið að leggja til mismunun?

Var það ekki rétt eftir miðnætti í gær sem þú skrifaðir undir formerkjum Kristinna Stjórnmálasamtaka, og lýstir því yfir (í beinu samhengi við yfirlýsingu Sjalla) að kristin gildi væru meðal annars réttindi ófæddra frumuklasa og rétt gagnkynhneigðra til að slá eignarétti á hjónabandið?

Kanntu annan?

Ingibjörg Axelma Axelsdóttir, 24.2.2013 kl. 14:19

15 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Jón Valur hvort vilt þú að ráði för stjórnarskráin, sem þú hefur varið með oddi og egg, eða landsfundur Sjálfstæðisflokksins? Er landsfundurinn að þínu mati yfirþjóðlegt vald?

Ætlar þú að endurtaka töfrabrögðin þín úr stjórnlagaþingskosningunni, bjóða þig fram fyrir Kristin stjórnmálasamtök en kjósa svo íhaldið?

Axel Jóhann Hallgrímsson, 24.2.2013 kl. 15:01

16 Smámynd: Jón Valur Jensson

Fósturdeyðingar eru sannarlega ókristilegt athæfi, Ingibjörg Axelma, hefur verið það frá upphafi kristni, ég hélt þú vissir það, þrátt fyrir viðleitni þína til að smætta það vandamál í huga þínum.

Og gifting samkynhneigðra er í beinni mótsögn við boðorð Jesú um hjónabandið og hefur aldrei tíðkazt í kristnum kirkjum allar aldir, fyrr en það gerist í örfáum tilfellum vegna undanlátssemi brigðulla leiðtoga og kennimanna við ágenga veraldarhyggju þrýstihópa, þvert gegn vilja grasrótar kristinna safnaða t.d. hér á Íslandi.

Jón Valur Jensson, 24.2.2013 kl. 15:36

17 Smámynd: Jón Valur Jensson

Fósturdeyðingar eru mismunun á milli einstaklinga, milli fullvaxinna kvenna (sem láta undan þrýstingi eða sækjast eftir þessu sjálfar) og barna þeirra í móðurkviði -- jafnvel mismunun milli kvennanna og þeirra meybarna sem þær bera undir belti, um 500 árlega hér á landi nú um stundir!

Jón Valur Jensson, 24.2.2013 kl. 15:39

18 Smámynd: Ingibjörg Axelma Axelsdóttir

Ó, fyrirgefðu.

Ég var alveg búin að gleyma því að réttindi þín sem trúarofstækismanns vegi þyngra en allra hinna.

Ég biðst forláts, elsku dúllan mín.

Ingibjörg Axelma Axelsdóttir, 24.2.2013 kl. 16:47

19 Smámynd: Óli Jón

Kristin gildi eiga augsýnilega ekki við :) skynsemin náði yfirhöndinni í þetta sinnið!

Óli Jón, 24.2.2013 kl. 17:28

20 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Auðvitað byggðust galdrabrennur á biblíunni með einum eða örum hætti rétt eins og aftökur og dómar fyrir hórbrot og þess háttar. þetta var túlkað þannig á þeim tíma. þetta þótti kristilega rétt á þeim tíma. Eða halda menn kannski að það hafi verið islamstrú hérna á 16.öld eða?

Nægir bara að líta á umsögn alþingis þegar Þorleifur Kortsson fékk dæmda nokkra (og þótti mikið afrek og óx hann mjög í áliti af sínum samferðamönnum)

,,...bæði lögmenn og aðrir guðhræddir menn, utan lögréttu og innan, ályktuðu, að þeir dómar væru eptir lögum kristilega ályktaðir. (Alþb. VI, 362)

Menn gátu ekkert farið að dæma menn fyrir galdra og brenna eða líflæta á annan hátt - nema vera í fullu samræmi við kristin dírektíf og gildi eins og þau voru túlkuð á þeim tíma.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 24.2.2013 kl. 18:10

21 identicon

Flestir sem hér skrifa væru löngu brenndir á báli ef hér væru lagabókstafir byggðir á kristnum gildum.

DoctorE 24.2.2013 kl. 19:53

22 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Edit: ,,á 17.öld".

En með galdrana og ofsóknir gegn galdranornum eða mönnum á þessum tíma (sem náði alveg framtil um 1800 á sumum stöðum. þ.e. bara í fyrradag) að þá er það fyrirbrigði mjög flókið og ekki hægt að segja beint samband sé milli kristi og þess fyrirbrigðis. End fyrirbrigðið allþekkt víða um heim og enn þann dag í dag hjá sumum ættbálkum.

Td. virðist sem kristnir hafi lítið gert með þetta fyrst í stað og lengi frameftir.

það að það verði þessi histería sirka 16,17,18 öld - það er bara erfitt að festa fingur á því og ýmsar kenningar eru uppi.

það gerir efnið að mjög furðulegt og sérstakt fyrir nútímamenn. það er ekki hægt að segja nákvæmlega til um afhverju histerían varð svona mikil.

Grunnurinn á bakvið það að hægt hafi verið að hefja slíkar ofsóknir er náttúrulega að fyrst verða umtalsvert margir að trúa því að galdramenn eða nornir séu í raun til. Sú trú var lengi til staðar fyrr á tímum og í Evrópu og fyrir kristni.

Á þeim tímum þegar ofsóknir náðu hámarki er eins og menn hafi trúað því að raunveruleg ógn stafaði af galdramönnum og nornum sem væru þá í bandalagi við Satan, Myrkrahöfðingjann, og samsæri væri í gangi gegn guði og hans góðu verkum. (Í mjög stuttu og einfölduðu máli.)

Slík hugmyndafræði er náttúrulega afar framandi fyrir nútíma vestræna menn. Sem flestir trúa ekki einu sinni á galdra, hvorki hvítagaldur eða svartagaldur.

það eru meir að segja sumir fræðimenn sem telja, að í raun hafi verið til einhverkonar galdrasamtök í Evrópu, að mig minnir.

þetta dæmi, galdrafárið, það er mjög flókið dæmi og margar hliðar á því.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 24.2.2013 kl. 22:31

23 identicon

Smá innlegg til Jón Vals:  Ef biblían tilekur að allt það líf sem líkaminn inniheldur sé forboðið að eyða, óháð stærð, umfang eða eðli þess sem lífið hefur tilgang til þá mætti alveg hætta allri heilbrigðisstarfsemi, enda væri hún af hinu illa þ.a.l.  Enda er heilbrigðisstarfsemi byggð upp á því að eyða aðskotadýrum, sýklum, sníklum, æxlum, sveppum osfrv, en með þeirri hugmyndafræði sem þú hefur má alveg færa rök fyrir því að þessi dýr hafi jafnmikla tilfinningar, gáfur og tilgang eins og fóstur í legi konu, ekki satt !!!   Enda hafa þessi litlu "kríli"  nefnd sýklar og veirur vegið margar milljónir manna í gegnum árin, áratugi og þúsundir ára í nafni ólæknandi sjúkdóma, og annað eins hefur vegið konur í formi fæðingardauða, meðgöngukvilla, meðgöngusjúkdóma margs konar, fæðingarþunglyndis, fæðingarfordóma (stelpur ekki æskilegar!)  og svo margt sem mætti telja sem varla er prenthæft !!! Svo væri ekki mjög einfalt mál að við mættum ráða yfir okkar eigin líkama, hvort sem við erum karlar eða konur, þú sem karlmaður hefur litla þekkingu á líkama konu ekki satt, svo þú ættir fyrst að reyna að spjalla betur við konu sem hefur átt mörg börn, eða engin börn áður en þú fellur dóma um hvort hún hafi rétt á því að stjórna sínum eigin líkama, því sjálf myndi ég ekki vilja láta "talibana" eins og þig neyða mig til að klæðast búrku restin af lífinu, svona til myndlíkingar fyrir þig kæri Jón Valur ! 

Lotta 21.3.2013 kl. 16:40

24 identicon

Án þess að vilja banna fóstureyðingar þá er innlegg Lottu svo fullt af mannfyrirlitningu að maður fær bara hroll. Maðurinn er að stóru leyti erfðir. Við erfum marga eiginleika okkar og án erfða okkar værum við ekki við. DNA er þegar allt til staðar við getnað. Fóstur er skyssa af manni. Sem slíkt er það stórmerkilegt. Sem þýðir ekki þú getir neytt einhvern til að ganga með það. Það jafnar sjaldan neinn saman manni, eða vísir af manni, og sýklum og sníkjudýrum, nema morðóðir stríðsmenn í ham við að eyða óvinum sínum, kallandi þá kakkalakka eða gerla. Sá sem burðast með þannig tilfinningar gagnvart eigin tegund þarf að leita sér lækninga.

Tómas 21.9.2013 kl. 04:07

25 Smámynd: Jón Valur Jensson

Vitaskuld hefur Tómas rétt fyrir sér í því, að innlegg Lottu, sem leggur að jöfnu mannlegt líf og sýkla og veirur, er allsendis fráleitt.

Þessi sjálfgefna forsenda Lottu: "Ef biblían tilekur að [öllu því] líf[i] sem líkaminn inniheldur sé forboðið að eyða, óháð stærð, umfang eða eðli þess sem lífið hefur tilgang til ..." er röng. Það er mannlegt líf í líkama annarrar mannveru, sem bannað er að (d)eyða.

Tökum líka eftir, að í ca. 99,9% tilfella er þetta nýja, mannlegt líf í líkama konunnar þangað komið vegna hennar eigin ákvörðunar. Hennar ábyrgð á að sýna sig FYRIR getnað, ekki í því að láta drepa það fóstur, sem hún tók sjálf þátt í að búa til.

Ég nenni ekki að anza fráleitum hnútuköstum Lottu og persónulegri rætni, enda engin þörf á ví. Innlegg hennar dæmir sig sjálft.

Innlegg Ingibjargar Axelmu 24.2. kl. 16:47 er EKKI efnislegt svar við mismununar- og fleiri röksemdum mínum. Stóryrði eru engin rök -- hjá hvorugri þeirra.

Jón Valur Jensson, 27.9.2013 kl. 09:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband