Færsluflokkur: Tölvur og tækni

Guðdómleg spádómsgáfa

Spámaðurinn ég!Í nótt sem leið bylti ég mér á alla kanta því það sóttu að mér andar. Ég gat vart sofið fyrir þessari ásókn og fannst mér sem ég væri í beinu sambandi við hið óræða. Andarnir sýndu mér margt og sýnirnar voru torræðar í byrjun, en tóku smám saman á sig skýrari myndir. Einn af öðrum heimsóttu mig aldnir meistarar úr fornri tíð og töluðum tungum sem ég skildi ekki ... ekki alveg strax! Draugar fortíðar, nútíðar og framtíðar gerðu sér dælt við mig og voru atlot þeirra fálmkennd í fyrstu en urðu brátt einbeittari. Tölur röðuðust upp í spaklegar raðir, tungl himins skipuðu sér í fylkingar, ótal sundurlausar raddir urðu að einni, tryllingslegir litir tóku á sig form regnbogans, tætingslegir tónar urðu að dásamlegri sinfóníu og ég, efasemdarmaðurinn, sá að ég gat lesið framtíðina eins og væri hún opin bók! Ég? sem hef ætíð efast! Ég get rýnt í þoku morgundagsins og séð það landslag sem mun marka ókomna tíma. Ég get lesið vilja almættisins! Ég sé í gegnum holt og hæðir!! Ég er spámaður í mínu föðurlandi!! Ég er Alfa og Ómega!!!!

Ég sé ... ég sé ... já, ÉG SÉ ... að notaðir iPhone símar munu hrapa í verði í kvöld!


Myndavél sem grennir

Grennri og flottari!Á vafri um vefinn fann ég lýsingu á nýrri myndavél frá HP, R937. Þetta er afar glæsileg vél og virðist helsti kostur hennar liggja í því að á henni er 3,6" snertiskjár sem þekur allt bak vélarinnar. Þegar ég las mig betur til um eiginleika vélarinnar rak ég fljótt augun í það að með henni er hægt að grenna viðfangsefni hennar. Já, það er komin myndavél sem grennir það sem hún fangar!

Áhugasamir geta kynnt sér þessa stórmerku nýjung í ljósmyndaheiminum með því að smella hér. Héðan í frá þarf ekki að bíða uns ljósmyndin er komin í tölvu og Photoshop til að "gera lítið" úr myndefninu, nú er hægt að ganga frá því strax í vélinni. Nú geta allir virst þvengmjóir og glæsilegir nokkrum sekúndum eftir myndatökuna. Nú verður gaman að lifa!


Yibbíí!

Yahoo!Hvernig sem allt veltur eru þetta frábærar fréttir. Líklega kemur ekkert út úr þessu strax, enda margt hér sem þarf að laga þótt tekist hafi að leggja skosku rottuna að velli, en lengi vel hélt hún íslenskum netverjum í gíslingu með óseðjanlegri nagþörf sinni. Það þarf að treysta netsamband við útlönd og það mun gagnast öllum óháð því hvort Yahoo! reki hér á fjörur.

Mjór er mikils vísir. Í dag fögnum við og vonandi verður lagt í lagningu nýs sæstrengs fyrir kvöldið. Það væri flott fyrir kosningar, annað eins hefur nú sést undanfarið!


mbl.is Yahoo kannar möguleika á netþjónabúi hér á landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband