Rúmlega 330 skráðu sig í Ríkiskirkjuna í ágúst!

Sannkristið barnFátt er svo með öllu illt fyrir Ríkiskirkjuna og þrátt fyrir að um 3.000 manns hafi skráð sig úr henni þá eru góðu fréttirnar þær (fyrir Ríkiskirkjuna) þær að rúmlega 330 einstaklingar voru skráðir í hana í síðasta mánuði!

Reyndar var um að ræða hvítvoðunga sem fæddust á landinu á þessum tíma og óskuðu ekki sjálfir eftir þessari skráningu, en þeir voru sjálfkrafa skráðir í trúfélag móður sem á sínum tíma var sjálfkrafa skráð í trúfélag móður o.s.frv. Þessi börn munu verða andlag sjálfvirkrar skattheimtu til Ríkiskirkjunnar þegar þau vaxa úr grasi, enda eru þau um 9.000 króna virði fyrir Ríkiskirkjuna ár hvert.

En þegar kom að því að íhuga það að gefa fólki færi á að spara sér þennan pening með skráningu úr kirkjunnar brást Karl Sigurbjörnsson hart við og sendi greinargerð til Alþingis sem m.a. inniheldur þessa perlu.

Verði umrætt frumvarp að lögum munu menn hugsanlega sjá sér fjárhagslegan hag í því að skrá sig utan trúfélaga því samkvæmt frumvarpinu eiga menn að fá endurgreidda árlega fjárhæð sem nemur sóknargjaldinu. Eðlilegt væri að gera sér grein fyrir því hvaða afleiðingar slíkt hefði í reynd ef samþykkt yrði. Þ. á m. yrði að kanna hvernig sóknir myndu mæta skertum tekjum með því að draga úr þjónustu, fækka starfsfólki og auka tekjuöflun. #

Þarna sést glögglega hvert raunverulegt virði sauða Ríkiskirkjunnar er því Karl virðist bara sjá krónutölur í þeim. Hann veit sem er að fólk myndi skrá sig úr Ríkiskirkjunni hægri vinstri ef því fylgdi fjárhagslegur ávinningu, enda er náðargjöf Ríkiskirkjunnar ekki meira virði árlega en 9 þúsund kall skv. þessu. Hann hefur ekki trú á því að fólk meti aðild að trúfélagi sínu meira en virði fimm bíóferða árlega.

Hér sést enn og aftur að þeir sem minnsta trú hafa á Ríkiskirkjunni eru forstjórar hennar.


mbl.is Mikil fækkun í þjóðkirkjunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Amen eftir efninu.

Jón Steinar Ragnarsson, 4.9.2010 kl. 22:21

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Sé að Sigmundur Davíð er búinn að fremja pólitískt sjálfsmorð í beinni, með að bera blak af kirkjunni í Mbl. í dag.  Hann varð fyrir vikið jafn greindarlegur og forveri hans í þessum efnum.  Vonandi mætir hann þó ekki með biblíuna í pontu eins og Árni Johnsen forðum.

Hann hvarf gersamlega af mínum radar við þetta viðvik.

Jón Steinar Ragnarsson, 4.9.2010 kl. 22:24

3 identicon

Ég vona að þetta verði fellt út við næstu breytingar á stjórnarskrá: "62. gr. Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda"

Þangað til mætti breyta lögum þannig að börn séu ekki sjálfkrafa skráð í trúfélag við fæðingu. Mögulega að foreldrar gætu skráð þau en best væri að ekki væri hægt að skrá einstakling í trúfélag fyrr en við 18 ára aldur. Í skólum ætti að kenna trúleysi í jöfnu hlutfalli við trúarbrögð.

Björn 4.9.2010 kl. 22:50

4 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Hver einstaklingur er ~12.000 kr fyrir ríkiskirkjuna, þar sem hún fær ~30% ofan á sóknargjöldin í jöfnunarsjóð sókna og Kirkjumálasjóð.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 5.9.2010 kl. 03:50

5 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Hún nýtur svo skattfrelsis, sem mönnum láist að telja með þegat títtnefndir 5 milljarðar eru tíundaðir. Hversu mikið það vegur er óljóst af því að þeir þurfa ekki að gefa það upp. Það er samtveruleg blóðtaka.

Vildi bara nefna það. 

Þegar talað var um þessi tæp 3000 í fréttum, þá var það sett fram sem fækkun í þjóðkirkjunni almennt yfir ákveðinn tíma. Þegar fækkar í þjóðkirkjunni þrátt fyrir þessar ósjálfviljugu og sjálfvirku skráningar, þá er ljóst að fjödlinn, sem segir henni upp er talsvert mikið meiri.

Jón Steinar Ragnarsson, 5.9.2010 kl. 05:30

6 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Jamm, góður punktur. Samkvæmt Hagstofunni eru ~2500 fæddir umfram dána á hverju ári. Ef 80% þeirra eru í ríkiskirkjunni, þá ætti náttúruleg aukning að vera ~2000. Reyndar gæti eitthvað af fólki verið að flytja úr landi.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 5.9.2010 kl. 07:02

7 Smámynd: Sigurður Hreiðar

„Lastaranum líkar ei neitt, lætur hann ganga róginn. Finni hann fölnað laufblað eitt, fordæmis hann skóginn.“

Sigurður Hreiðar, 5.9.2010 kl. 13:07

8 Smámynd: Guðmundur St Ragnarsson

Það er eðlilegt og rétt að skrá "hvítvoðunga" í þjóðkirkjuna svo fremi sem foreldrar óska ekki eftir öðru. Gott að foreldrar þeirra vilji þeim allt hið besta eins og að fylgja frelsaranum. Það vill svo til að flestir Íslendingar eru kristnir og í þjóðkirkjunni þótt þú og fleiri amist við þeirri staðreynd. Börnin geta svo ákveðið síðar að staðfesta (eða ekki) skírnarsáttmálann með fermingu eins og verið hefur. Allt saman gott og blessað drengir.

Guðmundur St Ragnarsson, 5.9.2010 kl. 14:23

9 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Guðmundur, ég veit ekki hvort þú hefur mismælt þig. Auðvitað á að standa:

"Það er eðlilegt og rétt að skrá "hvítvoðunga" í þjóðkirkjuna svo fremi sem foreldrar óska þess."

Sjálfkrafa skráning smábarna án virkrar íhlutunar foreldra er auðvitað fáránlegt - sérstaklega eini tilgangurinn er að viðhalda fjárhagslegri afkomu tiltekinnar stofnunar!

Brynjólfur Þorvarðsson, 5.9.2010 kl. 15:15

10 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Síðustu rúmlega tíu árin hafa milli 1000 og 2000 manns skráð sig úr þjóðkirkjunni á hverju ári, en nettó fjölgun hefur verið á bilinu 300 - 1000 manns (innskráða umfram útskráða). Sem hlutfall af þjóðinni hefur þjóðkirkjan misst tæpt 1 prósentustig á hverju ári á sama tímabili.

Tölurnar frá Þjóðskránni ná aðeins yfir úrsagnir en ekki þá sem fæðast sjálfkrafa inn í kirkjuna, það er því misvísandi að tala um nettófækkun upp á 2900. Miðað við "eðlilegt" árferði hefið mátt búast við hámark 1500 úrskráningum á 8 mánuðum, hér er því um tvöföldun á þeirri tölu að ræða.

Ef úrsagnartoppurinn er búinn þá má reikna með nettófækkun í Þjóðkirkjunni upp á 500 - 1000 manns þegar árið verður gert upp. En miðað við vitleysisganginn í kringum Kalla þá verða úrsagnir trúlega áfram óvenju margar.

Nettófækkun upp á 1000 manns þýðir að hlutfall af þjóðinni lækkar um uþb. 1%. Til að nálgast 2% þyrfti nettófækkun um nálægt 4000 manns - sem er ekki ómögulegt ef lætin halda áfram.

(Einhver kann að benda á misræmi milli þess að nettófjölgun fyrri ára leiði til 1% hlutfallslækkunar á ári, en það þurfi nettófækkun á þessu ári til að fá sömu lækkun. Misræmið skýrist af miklum brottflutningi síðasta árs. Þar voru hlutfallslega fleiri utan þjóðkirkju en meðal þjóðarinnar allrar. Hlutfallslega stóð þjóðkirkjan því í stað á síðasta ári þótt hún hafi orðið fyrir nettófækkun upp á rúmlega 1000 manns.)

Brynjólfur Þorvarðsson, 5.9.2010 kl. 15:51

11 Smámynd: Guðmundur St Ragnarsson

Þetta er rétt leiðrétting Brynjólfur. Takk fyrir það.

Guðmundur St Ragnarsson, 5.9.2010 kl. 18:06

12 Smámynd: Óli Jón

Guðmundur: Er þó ekki réttast að bíða uns einstaklingurinn nær sjálfræðisaldri og láta hann þá um að ganga frá sinni trúfélagskráningu upp á eigin spýtur? Hvernig er hægt að fullyrða að ólögráða barn eða unglingur hafi sömu trú og foreldrarnir? Hvað mælir því í mót að barnið sjái um þetta sjálft við 18 ára aldurinn?

Af hverju eru trúaðir svo áfjáðir í að skrá ólögráða börn í trúfélag? Af hverju stafar þessi asi?

Óli Jón, 6.9.2010 kl. 02:49

13 Smámynd: Odie

Um að gera að benda á bætta þjónustu en þessi sparar sporin, fyrir þá sem eru að hugsa um að leiðrétta trúarskráningu sína..

Rafræn skjalaskil : http://www3.fmr.is/pages/1037 

Odie, 6.9.2010 kl. 12:31

14 identicon

Spáið í því; Ungabörn að ganga í stofnun sem var með nauðgara og barnaníðing sem yfirmann.. ganga í stofnun sem gerði allt til að fela níðingsverk yfirmanns...
Stofnun sem segir ykkur ekki frá níðingsverkum meints boss í geimnum

doctore 6.9.2010 kl. 12:59

15 Smámynd: Ingibjörg Axelma Axelsdóttir

Það má líka reikna inní þetta dæmi þann landlæga misskilning hjá íslensku þjóðinni, að skírn sé nafngift.

Að nefna er ekki það sama og að skíra, eins og margir halda, þótt þessar tvær athafnir hafi verið settar saman.

Foreldrarnir nefna barnið, en presturinn skírir það inn í trúfélag. Það er það EINA sem skírnin gerir.

Því nafngiftin sjálf tekur ekki gildi fyrr en presturinn hefur skilað viðeigandi pappírum til yfirvalda.

Ingibjörg Axelma Axelsdóttir, 6.9.2010 kl. 13:01

16 identicon

Þó ég sé ekki í Þjóðkirkjunni þá er ég feginn að ég hef ekki þurft að fara niður í þjóðskrá til þess að skrá börnin í mitt samfélag.  Mér finnst það bara eðlilegt, þegar líklegt er að flestir telja sinn veg bestan og vilja barninu sínu best, að meirihluti fólks vilji að barnið sitt sé skráð í það trúfélag sem það er í.  Það væri bara auka vinna fyrir Þjóðskrá að þurfa að taka við öllum þessum skráningum.  Mikið einfaldara að láta þá sem ekki vilja að barnið sitt sé skráð á sama stað geri það (og geti þá bara breytt sinni skráningu í leiðinni ef það oskar þess).

Svo finnst mér líka alveg eðlilegt að trúfélagið fái borgað fyrir börn sem þó ekki trúa þar sem það þarf samt sem áður að veita barninu ákveðna þjónustu.

Andri 6.9.2010 kl. 18:59

17 Smámynd: Ingibjörg Axelma Axelsdóttir

Andri: Börn eru skráð í trúfélag móður, sé hún í einhverju.

Annars er það argasta tilgangsleysi að vera að skrá barn í trúfélag, þar sem það hefur nákvæmnlega ekkert með hagsmuni barnsins að gera.

Svo finnst mér líka alveg eðlilegt að trúfélagið fái borgað fyrir börn sem þó ekki trúa þar sem það þarf samt sem áður að veita barninu ákveðna þjónustu.

Viltu vinsamlegast koma með dæmi um þessa þjónustu sem er svo lífsnauðsynlegt að sé til staðar?

Ingibjörg Axelma Axelsdóttir, 6.9.2010 kl. 19:54

18 Smámynd: Odie

Ættum víð ekki að skrá börn í stjórnmálaflokka fyrst við erum að ákveða lífskoðanir þeirra.  Þá myndum við losna fljótt við kosningar, enda eru þær eintómt vandræði. 

Odie, 7.9.2010 kl. 09:31

19 Smámynd: Óli Jón

Mér finnst það alltaf örlítið sorglegt til þess að hugsa að mörgum trúuðum finnst tilgangurinn helga meðalið þegar kemur að skráningu smábarna í trúfélög. Að þeim finnist það alveg sjálfsagt að reikna með því að barnið taki sömu trú og þeir.

Að barnið skuli hafa sjálfstæðan vilja þegar kemur að trú virðist ekki vera möguleiki. Að það skuli vera hugsanlegt að barnið velji aðra trú eða jafnvel enga, það virðist ekki hvarfla að þessu fólki. Nei, trúin er svo persónuleg og einlæg að hún er ákvörðuð fyrir þennan litla einstakling strax við fæðingu.

Er það ekki sorglegt? Og þá mest fyrir trúna sjálfa? Að þetta persónulega skuli vera tekið úr henni og ríkisforsjáin sett í staðinn?

Óli Jón, 7.9.2010 kl. 10:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband