Má Síminn ljúga og ljúga og ljúga?

Slyngur Símaður?Nú er Síminn byrjaður að auglýsa aftur að Frelsið stoppi tímann og að Frelsaðir geti talað og talað og talað og talað og talað og talað ... (ókeypis). Málið er að ef fólk tekur tilboði Símans og Frelsast þá getur það orðið býsna dýrkeypt. Það er nefnilega ekkert að marka Símenn þegar þeir segja að Frelsaðir geti talað og talað og talað ... (ókeypis)! Sleipir textasmiðir, útsmognir markaðsmenn og hálir auglýsingamenn hafa farið höndum um raunveruleikann og bjagað hann þar til upp er niður og hægri vísar til vinstri.

En látum verk þessara snjöllu Símanna dæma sig sjálft. Hér er texti úr nýjustu auglýsingunni sem nú er sýnd af mikilli ákefð í sjónvarpi:

Frelsi stöðvar tímann.

Fylltu á Frelsið með símanum og þú borgar bara fyrir fyrstu þrjár mínúturnar og getur svo talað og talað og talað.

Síminn.

Það er ekki hægt að túlka þetta öðruvísi en svo að eftir þriggja mínútna símtal stöðvi Síminn gjaldmælinn og leyfi fólki að tala og tala og tala ... (ókeypis). Það er engin stjarna sem vísar í smátt letur, það er ekkert smátt letur í auglýsingunni, það er enginn fyrirvari kynntur. Loforðið stendur eitt og óskorað. Þú borgar fyrstu þrjár mínúturnar og svo ekki söguna meir. Eða hvað?

Ef Frelsaðir hafa fyrir því að fara inn á vef Símans þá sjá þeir að þetta dásamlega tilboð Símans er bara gullslegin gildra sem ætlað er að lokka fólk í Frelsi sem reynist svo bara Helsi þegar öllu er á botninn hvolft. Í Frelsuðum heimi Símanna er gjaldmælirinn nefnilega settur í gang aftur (hljóðlega) eftir 30 mínútna símtal og þá fær sá Frelsaði að blæða og blæða og blæða (drjúgt) meðan hann talar og talar og talar (dýrt).

Nú getur háll og vatnsgreiddur Símaður líklega reynt að bera það fyrir sig að hann hafi gert ærleg mistök í textagerð í öllu kynningarefni fyrir endurnýjaða Frelsis kynningu. Slíkt er þó fjarri sanni. Það kemur glögglega í ljós þegar eldri útgáfa sjónvarps auglýsingarinnar er skoðuð, en þar er textinn á þessa leið:

Frelsi stöðvar tímann.

Fylltu á Frelsið með GSM símanum og þú borgar bara fyrir fyrstu þrjár mínúturnar og getur svo talað og talað fyrir núll krónur.

Síminn.

Lygin er ekki eins ber, en hún er jafn ljót. Ofurflottir Símenn hafa þar unnið fyrir kaupinu sínu þegar þeir gerðu textann óljósari, veiðilegri, safaríkari. Þannig völdu þeir ekki að skýra tilboð sitt, lýsa það og einfalda ... nei, þeir völdu að fara lengri leiðina, geri lygina þokukenndari, sölulegri, girnilegri. Nú eru þeir konungar alheims, rokkstjörnur í hæstu hæðum, guðir meðal manna. Þeir eru á toppi tilverunnar!

Því hvað er betra en að rukka og rukka og rukka meðan Frelsaðir tala og tala og tala?

PS. Ég vísa í gamla færslu sem Davíð Örn Sveinbjörnsson skrifaði í fyrra um þetta sama mál. Já, þetta er gamalt mál og sýnir hversu gírugur Síminn er í auglýsingamennsku sinni.

Þá er áhugavert að kynna sér auglýsingar á vef mbl.is og kynningu á vef Símans í .pdf skjali. Þar kemur glögglega í ljós að engir varnaglar eru slegnir og að ekki er með nokkrum hætti hægt að skilja auglýsingarnar öðruvísi en svo að þarna sé verið að kynna frábært tilboð sem henti vel á krepputímum.

Að lokum er rétt að birta eldri útgáfu auglýsingarinnar sem hægt er að skoða á YouTube. Áhugasamir verða að ímynda sér nýju útgáfu textans og að fyrirvarinn í lokin sé horfinn, en að öðru leyti hefur hún ekki breyst. Stelpurnar eru jafn yndislegar, stöðumælavörðurinn jafn undrandi ... og hlauparinn jafn ringlaður, rétt eins og við hin :)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Landfari

Þetta er nú bara svindl sem ég hélt að væri bannað.

Ertu búinn að benda Neytendastofu á þetta?

Landfari, 15.8.2008 kl. 10:18

2 Smámynd: Jón Ragnarsson

Er hvergi minnst á þetta hjá símanum? Ég finn ekki þessa 30 mínútu klausu á siminn.is.

Jón Ragnarsson, 15.8.2008 kl. 11:21

3 Smámynd: Freyr Guðjónsson

Mikið ertu orðinn heilaskemmdur af öllu þessu GSM spjalli þínu. Hvernig væri að fara bara í heimsókn í stað þess að eyða bróðurpartinum af hverjum degi í að tala í GSM símann þinn.... og restina af honum í að væla yfir því hvað það er dýrt.

Örninn, reiðhjól 40 kall. afgreitt.

Freyr Guðjónsson, 15.8.2008 kl. 11:34

4 Smámynd: Óli Jón

Jón: Kíktu á Frelsis-síðu Símans og á það sem þar stendur skrifað:

  • Eftir 3 mínútna símtal/myndsímtal talar þú fyrir 0 kr. næsta hálftímann.

Þetta er í beinni mótsögn við það að 'tala og tala og tala' og mætti vel kynna í auglýsingunum. En líklega finnst 'snjöllum' markaðsmönnum Símans þeir hafa unnið stórsigur þarna. Svo kemur líka fram að tilboðið gildir bara fyrir símtöl innan kerfis Símans, en sá fyrirvari ekki kynntur í auglýsingum.

Freyr: Er til eitthvað sorglegra en einhver sem pirrar sig fyrir einhverjum sem er að pirrast yfir einhverju? :) En takk fyrir flott innlegg!

Óli Jón, 15.8.2008 kl. 11:47

5 Smámynd: Freyr Guðjónsson

Það að ég sé bitur og asnalegur gaur er enginn afsökun fyrir þig að vera það líka.

Freyr Guðjónsson, 15.8.2008 kl. 14:55

6 identicon

Menn þurfa sjandnast að hafa áhyggjur af því að byrja að borga aftur eftir 33 min en ef það gerist þá held ég að þú borgir fyrir 3 og svo aftur  frítt í 30min, mig minnir að þetta hafi verið sona en sé ekkert um það þannig að ég lofa engu.

Snilld Símans er sú að líklega um 90% símtala í GSM eru undir 3 min og því þó síminn sé að lofa því að þú borgir aðeins fyrir 10% af 30 min símtali þá eru þeir líklega að fá 99% af símtölum borguð og þetta því örugglega einn sniðugasti afsláttur sem Síminn getur boðið fólki!

Ég væri til í að geta gefið fólki hluti sem ég þarf sjaldnast að standi í skilum á :)

Áfram söluteam Símanns! 

Helgi 15.8.2008 kl. 15:25

7 identicon

Sæll Óli,

Þér er greinilega mjög illa við Símann en þá má benda á að tilboð annarra símafyrirtækja eru með nákvæmlega jafn mikið af smáu letri.

Tek sem dæmi skítt með kerfið herferð vodafone.

Kv. Brynjar

Brynjar Guðnason 15.8.2008 kl. 15:57

8 identicon

Haha skítt með kerfið reiknaðu nú út 1000 mín í 5 vini á mánuði gera 6 mín á dag í 5 vini

Hjá símanum 1800 mín í 3 vini sem gera 30 mín á dag þannig vertu ekki að segja eitthvað að síminn sé að svindla þegar vodafone er jafnmikið að því

Sigga 15.8.2008 kl. 16:26

9 identicon

Þarf fólk virkilega að blaðra í Gsm síma í meir en hálftíma í einu ???

Magnus Jonsson 15.8.2008 kl. 19:13

10 Smámynd: Óli Jón

Mér þykir afar vænt um Símann og hef nokkuð sterk tengsl við hann. Þess vegna er ég líklega svona óánægður með að hann fari aftur af stað með afar villandi herferð þrátt fyrir að hafa fengið skýrar ábendingar um þessa vankanta áður.

Svo eiga neytendur bara betra skilið en þetta. Er það verjandi að birta bara hálfa söguna, betri helminginn, í auglýsingum og láta viðskiptavinum það eftir að uppgötva harmsöguna upp á eigin spýtur? Tilboð Símans í þessu tilfelli hefði ekkert verið verra ef það hefði verið sett svona fram:

Frelsi stöðvar tímann.

Fylltu á Frelsið með símanum. Þú borgar bara fyrir fyrstu þrjár mínúturnar og getur svo talað ókeypis næsta hálftímann innan kerfis!

Síminn.

Þannig er þetta bara.

Hvað varðar samanburð við Vodafone, þá varðar mig bara ekkert um hann. Hins vegar er gott að misbrestir í tilboði Vodafone skuli hafa komið hér fram, ef einhverjir eru. Hins vegar skánar gönuhlaup Símans ekkert við það þótt Vodafone fylgi í kjölfarið. Með sama hætti er hægt að segja að olíufélögin hafi ekkert gert af sér sökum þess að þau tóku öll þátt í ljótu ráðabruggi!

Óli Jón, 15.8.2008 kl. 19:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband