Næstum því eins og kristnitakan hérlendis

Líkindin á milli þessarar frásagnar og 'fallegu' sögunnar af því hvernig Íslendingar voru neyddir til þess að taka upp kristna trú eru sláandi mikil. Í báðum tilfellum er fólkinu gefið það 'frjálsa' val að taka upp nýjan sið eða deyja ella sem auðvitað verða seint taldir jafn góðir kostir.

Leitt er að sjá þessa endurgerð hryllingssögunnar um norsku biskupana Friðrek og Þangbrand, en sá síðarnefndi fór með ofbeldi um Ísland í viðleitni sinni til þess véla og neyða landsmenn til þess að láta af meintum barbarisma. Þrátt fyrir hernaðarlega yfirburði náði Þangbrandur þó ekki betri árangri en svo að fáir þáðu tilboð hans og einhverjir 'kusu' frekar að deyja og sækja sinn rétt í Valhöll frekar en að selja sig undir vald og pínu þess guðs sem Brandur bauð. Eftir að hafa skrönglast um landið um nokkra hríð lyppaðist hann aftur til Noregs og lýsti þeirri skoðun sinni fyrir Ólafi konungi blátönn að Íslendingar myndu líklega ekki láta segjast sem auðvitað pirraði nafna minn umtalsvart, enda metnaðarfullur mjög. Svo hefur nú kannski spilið inn í að elska guðs hans er auðvitað afar skilyrt og því hefur blátönnin talið öruggast að tryggja sér handanvist með afgerandi hætti. Hann hneppti því nokkra syni íslenskra höfðingja í gíslingu og sendi aftur sveit manna hingað til þess að reka kristniboðið ofan í kokið á Íslendingum með góðu eða illu.

Skemmst er frá því að segja að Íslendingar tóku upp þennan nýja sið með í augum glýjuglampann sem stafaði frá nýfægðum norskum sverðum og spjótum, en kristnu sölu- og ofbeldismennirnir þurftu þó m.a. að slá af fyrstu meginkröfu boðorðanna sem er krafa hins óörugga guðs um að enginn skuli aðra guði hafa. Já!, Íslendingar fengu s.s. formlega undanþágu frá fyrsta boðorðinu sem sýnir hversu brátt norskum sölumönnum trúarlegu snákaolíunnar var orðið í brók því ef eitthvað er þá ætti þetta ákveðna boðorð að vera það síðasta sem tekið væri út af borðinu, en raunin varð sú að það var það fyrsta sem fauk. Þessir norsarar voru bersýnilega miklir prinsippmenn!

Já, það er nöturlegt að sjá söguna endurtaka sig í austrinu því hún er ljót og helsti boðskapur hennar er sá að hægt er að koma jafnvel versta málstað fyrir borð með næglega miklum yfirgangi og sannfærandi hótunum um dauða og limlestingar.

PS. Skyldi þessi frásögn af vösku trúarsölumönnunum eystra verða fléttuð inn í trúfræðilega kennslu í grunnskólum til þess að sýna hvernig sagan endurtekur sig? Það er auðvitað sumpart áhugavert fyrir litlu krílin að geta fylgst með þessari framvindu í rauntíma, en fyrst og fremst grunar mig þó að þau muni helst fyllast sorg vegna framvindunnar hérlendis fyrir rúmlega 1000 árum síðan ef atburðirnir í austrinu eru rétt útskýrðir fyrir þeim.


mbl.is Reka kristna menn frá Mosul
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er nú alveg ótrúlega skemmtilega skrifað og væri öllum fengur í að fá vísindaskáldsögu frá þér :-)

Raggi G. 19.7.2014 kl. 12:24

2 identicon

Villurnar hjá þér Óli Jón eru eiginlega það margar að hægt er að efast um að þú hafir lesið frumheimildir eða fræðibækur um kristnitöku Íslendinga. Fyrir það fyrsta var Ólafur Tryggvason Noregskonungur á þeim tíma þegar Íslendingar tóku formlega við kristni. Þangbrandur var þýskur en ekki norskur og prestur en ekki biskup. Hernaður hans hér á landi takmarkaðist við víg á skáldum sem höfðu ort um hann níð og voru í mesta lagi þrjú. Hernaður er jafnframt misvísandi orð þar sem fylgismenn Þangbrands hafa aðeins verið nokkrir.

Friðrekur er einnig talinn hafa verið þýskur. Undantekningarnar frá kristnum lögum sem samþykktar voru á alþingi er líka varla hægt að skilja sem leyfi til fjölgyðistrúar. Auk þess lögðust þær af á konungstíð Ólafs helga stuttu síðar.

Að lokum vil ég mæla með því að þú lesir Íslendingabók og eitthvert nýlegt fræðirit eða tvö um umrætt tímabil í Íslandssögunni.

Trúarbragðafræðingur 19.7.2014 kl. 16:16

3 Smámynd: Óli Jón

Raggi: Já, þetta hljómar eins og undarlegasta furðusaga, rétt er það!

Trúarbragðafræðingur: Ég efast ekki um að allt sem þú tilgreinir þarna sé satt og rétt, enda ertu skv. eigin orðum sérmenntaður fræðingur í þessu bixi öllu saman. Gott er að sú uppfræðsla skilaði sér svo vel á þessum vettvangi.

En skiptir það í raun máli hvort Þangbrandur hafi verið norskur eða þýskur, prestur eða biskup þegar hann reið um íslensk héruð og hótaði frjálsu fólki öllu illu ef það svissaði ekki úr ásatrú, en samt ekki, yfir í Hvíta-Krist? Eru ofbeldið og afarkostirnir ekki stóru málin þótt þú gerir auðvitað lítið úr því að einhverjir ræflar hafi týnt lífinu fyrir að níða Þangbrand þar sem hann fór um sem erindreki nafna míns Tryggvasonar og Hvíta-Krists?

Jæja, gott og vel, þú leiðréttir mjög 'veigamiklar' veilur í mínum málflutningi og kann ég þér góðar þakkir fyrir. En gerirðu engar athugasemdir við að Noregskóngur hafi haldið nokkrum börnum íslenskra höfðingja sem gíslum til þess að bæta samningsstöðu Guðs almáttugs á Íslandi? Ég sé að þú klórar aðeins í bakkann þegar kemur að undanþágunni frá fyrsta boðorðinu, en það liggur dagljóst fyrir að Íslendingar máttu blóta gömlu goðin svo fremi að enginn sæi til þeirra, ergo hafa fleiri guði en þann þríeina. Í mínum huga er þetta skýrt leyfi til þess að binda trúss sitt við fleiri guði en þann sem Friðrekur hinn þýski barðist fyrir. Samningamenn Gamla-Guðs virtust ekki halda mjög fast í þetta 'Prime Directive' hans, lúkning málsins var aðalatriðið. Ah, og svo samþykktu þessir lukkuriddarar Guðs að henda mætti börnum út á gaddinn ... svona rétt eins og mælt er fyrir í Biblíunni*. En þetta var nú samt bara til þess að liðka fyrir innrás Jesúss Jósepssonar á Íslandi þannig að það tilgangurinn helgar örugglega það súra meðal. Vei og svei öðrum þeim trúarbrögðum sem myndu reyna að leika þennan sama leik þau fengju væntanlega ádrepu frá þér.

Og loks virðistu ekki sjá neinn mun á þeirri atburðarás sem lýst er í Moggafréttinni og þeirra atburða sem ég afbakaði svo skelfilega að þér varð svona ógurlega mikið mál. Ég hlýt að álykta að fyrst þér sárnaði svo hvernig ég fór með þjóðerni Þangbrands að þú hefðir nú altént skrifað 1-2 setningar um meginefni greinarinnar, þ.e. hvernig trúarsvissið fór fram með ofbeldi og hrottaskap eins og virðist gerast eystra. Er þögn sama og samþykki? Hver veit, vegirnir eru órannsakanlegir.

En takk samt kærlega fyrir að leiðrétta öll smáatriðin, efnislega tittlingaskítinn, sem þú gerðir svo vel, ég er viss um að lesendur þessa pistils munu anda léttar fyrir vikið enda örugglega vel ruglaðir í ríminu vegna þeirra. Þú minnir mig reyndar á bloggara sem notar sama bragð og hefur lítið upp úr krafsinu, en það er útúrdúr. Oft er sagt að djöfullinn leynist einmitt í smáatriðunum og þú hefur sannarlega gert þitt gagn í dag til þess að sporna gegn sókn hans. Undarlegt er þó hvernig þú skautar fram hjá aðalatriðinu ... en djöfulinn er kannski ekki þar að finna?

* Kaldhæðni.

Óli Jón, 19.7.2014 kl. 17:04

4 identicon

Sæll ÓLi.

Þessi texti þinn er illa skrifaður, vantar orð hér og þar
og setningaskipan í molum.

Þetta hendir bæði mig og þig þegar skrifað er meira af kappi
en forsjá.


Þá er gott að eiga að menn eins og Trúarbragðafræðinginn
sem hér skrifar af allri hófsemd og kurteisi.

Fyrir slíkt ber að þakka fortakslaust en láta ekki sem þurs
sem engum fortölum tekur.

Húsari. 19.7.2014 kl. 17:25

5 Smámynd: Óli Jón

Húsari: Trúarbragðafræðingurinn er alls góðs maklegur og þakkaði ég honum í löngu máli fyrir ábendingar hans. Hins vegar leyfði ég mér að gera nokkrar athugasemdir við málflutning hans og þykir mér leitt ef vantrúar- og guðleysistryllingurinn í mér hefur brotist út í lélegri íslensku. Það er óafsakanlegt, en þó leyfi ég mér að biðjast forláts.

En það er gott að fá svona ábendingar um setningaskipan og annað þess háttar, slíkt eykur iðulega dýpt umræðunnar og greiðir fyrir skilningi á því sem rætt er. Hafðu kærar þakkir fyrir! Ég gæti reyndar snúið ábendingum þínum til föðurhúsanna, en ég nenni því ekki :)

PS. Hefurðu ekkert um efni umræðunnar að segja?

Óli Jón, 19.7.2014 kl. 17:37

6 identicon

Sæll Óli Jón ég bendi þér á hinar mörgu staðreyndavillur til að gera þér ljóst fyrir að greining þín sé röng í þeirri von um að þú lesir þig til og myndir með þér upplýsta skoðun. Út frá svari þínu virðist það ekki líklegt.

Ég skal því fræða þig aðeins. Vissulega fór útbreiðsla kristninnar í sumum tilvikum í mannkynssögunni fram með ofbeldi eins og t.d. í Saxlandi þegar Frankar voru að þenja út veldi sitt eða þegar hinar þýsku riddareglur voru að mynda sitt veldi í Prússlandi og Litháen svo dæmi séu nefnd. Það eru hins vegar engin ummerki um trúarleg átök hér á landi. Gíslatökunnar er aðeins getið í heimildum sem eru heilli öld yngri en Íslendingabók og því teljast þær ekki traustar heimildir. Ef gíslatakan hefði þó átt sér stað og Íslendingar í raun tekið kristni vegna hótanna Noregskonungs hefði orðið afturhvarf til heiðni í kjölfar dauða Ólafs sem dó stuttu eftir kristnitökunnar á alþingi en svo varð ekki. Í innsveitum Noregs þar sem Ólafur hafði neytt menn til kristni varð einmitt slíkt fráhvarf. Það er þó nokkuð almenn skoðun meðal fræðimanna að Ólafur hafði ekki burði til að ráðast í herför til Íslands.

Varðandi Þangbrand þá segir eina trausta heimildin aðeins frá áðurnefndum vígum á skáldum og ekkert frá hótunum sem þú ætlar honum. Íslensk miðaldarit eru mjög mistraust sem heimildir.

Nýjasta rannsókn á trúarbragðaskiptum Íslendinga komst að þessari niðurstöðu: ,,trúarbragðaskipti Íslendinga voru vaxandi tengsl þeirra við kristnar þjóðir sem grundvölluðust af aukinni útbreiðslu kristninnar og kristinnar menningar á Norðurlöndunum. Íslendingar höfðu orðið fyrir kristnum menningaráhrifum í langan tíma sem lögðu grunninn að trúarbragðaskiptum. Ef ekki hefði gætt þessara menningaráhrifa hefðu trúarbragðaskiptin ekki gengið jafn greiðlega fyrir sig og raun bar."

Þú misskilur það að ég sé í einhverri trúvörn mér en mér fannst ástæða til að leiðrétta rangfærslur ef þér sárnaði við það finnst mér það miður.

Trúarbragðafræðingur 19.7.2014 kl. 17:57

7 identicon

Afsakaðu ég gerði mistök við tilvísun rétt er þetta svo: ,,helsta forsenda trúarbragðaskipta Íslendinga hafi verið vaxandi tengsl þeirra við kristnar þjóðir sem grundvölluðust af aukinni útbreiðslu kristninnar og kristinnar menningar á Norðurlöndunum. Íslendingar höfðu þá orðið fyrir kristnum menningaráhrifum í langan tíma sem lögðu grunninn að trúarbragðaskiptum þeirra. Ef ekki hefði gætt þessara menningaráhrifa hefðu trúarbragðaskiptin ekki gengið jafn greiðlega fyrir sig og raun bar."

Trúarbragðafræðingur 19.7.2014 kl. 18:04

8 Smámynd: Óli Jón

Trúarbragðafræðingur: Þannig að lítið er að marka seinni tíma heimildir m.v. þín svör, en má ekki segja slíkt hið sama um stofnrit kristinnar trúar? Til dæmis voru fæstar bækur Biblíunnar ritaðar um leið og atburðir gerðust, en samt virðast þær njóta vafans. Ónákvæmni þeirra kemur t.d. fram í því að höfundum guðspjallanna ber ekki saman í fjölmörgum atriðum um hin margvíslegustu mál.

En nóg um það. Höfundur ritgerðarinnar sem þú vitnar í segir þetta um Íslendingabók:

Hún er jafnframt traustasta heimild sem til er um kristnitöku Íslendinga bæði vegna aldurs hennar og þeirra aðferða sem höfundurinn notast við. Hugmyndir manna um kristnitökuna kunna þó að hafa breyst mikið frá atburðinum sjálfum til ritunartíma bókarinnar sem var rúmum 120 árum seinna. [#]

Þess ber að geta að leiðbeinandi hans við gerð ritgerðarinnar er sá hinn sami og leggur til þennan viskumola.

Í annarri umfjöllun segir:

Frásögn Ara, og frásagnir í öðrum fornum textum, hafa lengi mótað almenna söguskoðun um kristnitöku á Íslandi en hana má líka lesa sem mögulega ‘jartein’ eða fegraða mynd af því sem fram fór áður en kristni var lögtekin í landinu. Vert er að muna að frásagnirnar eru skráðar eftir á, af kristnum mönnum sem e.t.v. var mikið í mun að tengja jaðarsvæðið Ísland við evrópska kristni sem átti sér aldalanga sögu áður en Ísland byggðist. [#]

Sagan er þarna skrifuð af fólki sem ekki þekkti neitt annað en að búa við kristin sið og hefur líklega haft sífur prestsins gnauðandi um eyru þar sem hann réttlætti atburði liðinna tíma, máské til þess að halda fjárstreyminu góðu. Getur ekki allt eins verið að þarna sé sagan skrifuð af 'sigurvegurunum' sem móti hana eftir eigin sýn á sannleikann?

En ég þakka þér fyrir góðar ábendingar, enda má sjá að að þér gekk gott eitt til. Þá vona ég að Húsari lúslesi þennan texta og rýni hvort tveggja í stafsetningu, orðalag og setningaskipan sér til yndisauka og ánægju :)

Óli Jón, 19.7.2014 kl. 19:03

9 Smámynd: Theódór Norðkvist

Átakanlegt þegar menn eru það helteknir í hatri sínu á kristinni trú, að þeir leggja að jöfnu kristnitöku á Íslandi og ofbeldisverk- og -hótanir illvirkja og blindtrúarmanna sem hafa gefið sig hatursboðskapi Kóransins á vald.

Greinarhöfundur ætti að skammast sín, því greinin er móðgun við þá kristnu sem búa við ægilegar ofsóknir frá stórhættulegum hryðjuverkahóp. Ef þessir öfgamenn verða ekki stöðvaðir, er kannski ágætt að minna á að trúleysingjar eru sennilega næstir á dauðalista samtakanna, þeir eru ekki síður réttdræpir samkvæmt trúarritum þessara brjálæðinga.

Þannig að það er mjög óviturlegt hjá greinarhöfundi að nota þessa hræðilegu atburði í hatursdrifnu áróðursstríði sínu gegn kristnum og til að koma höggi á þá.

Theódór Norðkvist, 19.7.2014 kl. 23:11

10 identicon

Því miður velja margir trúleysingjar að drepa á dreyf og eða verja glæpi íslams með skírskotunum í miðaldasögu kristindóms.

Þetta er mjög skaðlegt.  Kristindómurinn hefur þróast í góða átt og fullnægir trúarþörf fólks í friði við aðra.

íslam aftur á móti þróast ekki.  Það koma stundum tímabil sem það verður minna skaðlegt en venjulega í þeim löndum sem það hefur sigrað.  Aftur á móti gýs það alltaf upp aftur þegar gasið í rotþrónni sem múhameð skildi eftir sig hefur náð upp nægum þrýstingi.

immalimm 19.7.2014 kl. 23:37

11 Smámynd: Óli Jón

Theódór: Trúskipti voru knúin fram með ofbeldi á Íslandi fyrir rúmlega þúsund árum og trúskipti eru knúin fram með ofbeldi í Írak fyrir sólarhring síðan. Það þarf mikla einbeitingu, afneitun og rörsýni til þess að sjá ekki líkindin þarna.

Auðvitað blæðir hjarta þitt vegna þessa kristna fólks, en minna virðast það slá fyrir marga aðra sbr. eftirfarandi ummæli þín sem valin eru af handahófi úr hafsjó álíkra ummæla hér á blogginu:

Þú reynir að gera lítið úr mínum málflutningi með því að nota orð eins og 'hatur' þegar þú vísar í mín skrif. Eitthvað segir mér að þú ættir að hyggja að bjálkanum í eigin auga sem virðist gjörsamlega byrgja þér alla sýn.

immalimm: Kristindómurinn virðist einmitt ekki eiga samleið með þjóðinni því hún er hægt og bítandi að snúa baki við honum skv. skýrslum frá talningarmönnum ríkisins undanfarin ár þar sem sífellt minna hlutfall þjóðarinnar finnur sér stað innan hennar þrátt fyrir að hafa verið skráð í hana við fæðingu.

Talandi um að hlutir þróist ekki. Það eru ekki nema örfá ár síðan að Ríkiskirkjan stóð þvert gegn því að konur mættu starfa sem prestar innan vébanda hennar. Í Bretlandi var þarlend Ríkiskirkja sá sig nýverið knúna til þess að leyfa konum að þjóna sem biskupar. Kristin trú er eitt mesta afturhaldsafl sem hrjáð hefur mannkyn og er þar í hópi fjölmargra annarra trúarbragða, ekkert betri né verri.

Óli Jón, 19.7.2014 kl. 23:59

12 Smámynd: Theódór Norðkvist

Alveg merkileg þessi árátta sumra að rifja upp gömul ummæli, en hvað er rangt í þessum ummælum sem þú grófst upp til að þurfa ekki að svara nýjustu ummælum mínum? Ég myndi segja að þessi geðveiki í Írak renni frekari stoðum undir að Íslam er andlegt myrkur. Það mæli ég ekki af hatri, frekar kærleika, ég vil vara fólk við þessum ófagnaði, sem hefur alls staðar leitt þjáningar og deilur yfir þjóðfélög.

Myndirðu bregðast eins við, ef þessi hótun hefði komið gagnvart trúleysingjum? Myndirðu taka því vel ef einhver segði að ofbeldisverk gegn trúleysingjum eða hótun ISIS um að taka þá af lífi, ef þeir gerast ekki múslimar, væri nauðalík baráttu trúleysingja á Íslandi gegn Gídeon? Hefurðu enga sómakennd?

Ég tek fram að það er ekki mín skoðun að barátta trúleysingja gegn kristinni trú sé lík aðförum ISIS, ég fordæmi þeirra voðaverk gegn hverjum sem þau beinast. Ólíkt greinarhöfundi, að því er virðist vera.

Theódór Norðkvist, 20.7.2014 kl. 00:33

13 identicon

Þú ert trúður, trúlaus trúður en trúður samt.

Maður sem reynir meiri af vilja en viti að bera saman miðaldir og nútíman er trúður, leiðinlegur og heimskur trúður.

Bjarni 20.7.2014 kl. 01:06

14 identicon

Ég ber mikla virðingu fyrir Kínverjum, sem í gegnum þúsundir ár hafa haldið sínu striki og verið trúir sínu fólki.  Þeir halda enn, sinni gömlu trú ... sínum gömlu bókmentum, og sinni gömlu skrift.

Og nú eru þeir stærsta heimsveldi mannkynssögunar, en Ísland sem skríður eftir hvaða hundadagakonungi sem til er, er að missa þessa eyju sem þeir þurftu að flýja til.

Bjarne Örn Hansen 20.7.2014 kl. 07:49

15 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Vil benda "trúarbragðafræðingnum" á að það eru ekki til neinar frumheimildir um kristnitöku á Íslandi.

Íslendingabók er skrifuð rúmum 100 árum seinna í augljósum áróðurstilgangi.

Að kalla Íslendingabók "frumheimild" sýnir alvarlegt skilningsleysi á sagnfræðilegri aðferðarfræði.

Brynjólfur Þorvarðsson, 20.7.2014 kl. 07:51

16 Smámynd: Óli Jón

Theódór: Ég veit að það er glatað þegar gamalt raus er dregið fram í dagsljósið og þykist vita að þér finnist þetta óþægilegt, en ég taldi nauðsynlegt að sýna fram á að þú kemur hokinn af fordómafargi inn í þessa umræðu. Hvað hug minn til þessara óyndismanna eystra varðar, þá kemur hann vel fram í samanburði mínum við kristnitökuagentana hér fyrir rúmlega þúsund árum síðan og enginn, nema þeir allra glámskyggnustu, ætti að þurfa að ganga gruflandi að þeirri niðurstöðu.

Ég myndi bregðast nákvæmlega eins við myndu þessar aðgerðir ISIS-manna beinast gegn trúleysingjum því þeir yrðu þar bara fyrir barðinu á ógeðfelldri trúboðsaðferð sem við Íslendingar þekkjum vel úr sögu okkar. Þú getur reynt að gera mér upp skoðanir á þessu máli og þú verður að eiga slík vinnubrögð við sjálfan þig.

Bjarni: Þetta var snjallt innlegg hjá þér, en hefurðu ekkert um málefnið sjálft að segja? Er þessi upphrópun upphafið og endirinn á rökþurrð þinni og málefnaleysu? Þetta er helsta einkenni þeirra sem lítið vita og geta, að ráðast að persúninni í stað þess að taka á málinu.

Óli Jón, 20.7.2014 kl. 12:16

17 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ef það eru ekki til neinar frumheimildir um kristnitöku á Íslandi, þá getið þið heldur ekki fullyrt að hún hafi verið knúin í gegn með ofbeldi. Á hvaða heimildum byggir sú fullyrðing þá?

Ég fæ svo ekki séð að þessi gömlu ummæli mín séu óþægileg, ég stend fyllilega við þau enn þann dag í dag.

Theódór Norðkvist, 20.7.2014 kl. 13:19

18 identicon

Það er merki um mikla sjálfhverfu, þjóðrembu og ethnocentrískan, eurocentrískan hugsunarhátt Íslendinga og almennt skeytingarleysi um umheiminn að setja alltaf allt í samhengi við eigin sögu og nota erlenda harmleiki sem tilliástæðu til innantóms dægurmálagaspurs eða til að otast út í samlanda sína sem þeim líkar ekki við. Þannig láta íslenskir vinstrimenn, eða létu, gjarnan eins og þeir ættu eitthvað sameiginlegt með Obama (sem er lengra til hægri en Sjálfstæðisflokkurinn) og íslenskir hægrimenn hengja sig utan í þá sem eru kallaðir hægri í öðrum löndum en myndu bara kalla þá kommúnista, því það hafa aldrei verið alvöru hægri- né vinstrimenn á Íslandi, heldur bara samansafn miðjumoðs heigla sem finnst samt gaman að "munnhöggva mann og annan", þó það sé bara innræktað frændnýð einsleits og leiðinlegs samfélags. Það er skammarlegt að í dag sé verið að myrða fólk og Íslendingar láti það sér í léttu rúmi liggja og sendi enga aðstoð til Sýrlendinga eða Íraka á meðan hér rýkur hver og einn upp til handa og fóta og barmar sér ef Færeyskum togarasjómönnum líður eitthvað illa og er rótin af þessu rasismi. Sami rasismi og stýrir því að þegar það verða náttúruhamfarir í Asíu hljóðar íslenski fréttaflutningurinn á þessa leið "10 af þeim látnu eru frá Norðurlöndunum", eins og þau dauðsföll séu sérlega fréttnæm eða harmræn. Sami rasismi og veldur því að þá byrja gömlu kallarnir að gaspra á Hlemmi eða hringja í þjóðarsálina "er þetta bara ekki eins og Skaftáreldar hér um árið" í stað þess að standa upp og hjálpa til, eða hegða sér eins og menn en ekki mýs, með öðrum orðum.

Black 3.10.2014 kl. 17:17

19 identicon

Brynjólfur Þorvarðsson

Frumheimildir eru samtímaheimildir – heimildir sem verða til á tímabilinu, sem verið er að rannsaka, og sem byggja ekki á öðrum heimildum. Engin úrvinnsla fræðimanns hefur átt sér stað varðandi þessar heimildir. 
     Frumheimildir eru margvíslegar, t.d. skjöl stjórnarskrifstofa, bréf, dagblöð, fornleifar, örnefni, fréttamyndir, skáldsögur, málverk o.s.frv. Frumheimildir eru vandmeðfarnar og á maður ávallt að leitast við að nota þá upprunalegustu.
     Frumheimildir skiptast í vottarheimildir og sagnarheimildir (sjá síðar). Frumheimildir eru misjafnar að gæðum.
     Það er rétt að taka fram að margir miðaldafræðingar eru ósammála þessari skilgreiningu. Þeir telja að frumheimildin sé elsta varðveitta gerð af heimildinni. Tekið af vef:

 https://notendur.hi.is//~eggthor/adferdir1/heimildir/heimskilgr.htm

Hlutlægur Náttfari 5.12.2014 kl. 04:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband