Um trú ríkistrúaðra á Ríkiskirkjunni

Hagsmunir kirkjunnar?Helstu meðmælendur Ríkiskirkjunnar segja hana sterka og eina af meginstoðum þjóðfélags vors. Hún sé samofin þjóðarsálinni og án hennar myndi þjóðin vaða eintóma villu. Þessir sömu aðilar tilgreina m.a. að það segi meira en mörg orð að um 80% landsmanna séu nú skráð í Ríkiskirkjuna.

En á sama tíma og þessi orð eru sögð, telja þessir sömu aðilar að Ríkiskirkjan geti ómögulega lifað án þess að vera í öndunarvél ríkisins. Getur verið að Ríkiskirkjan sé jafn aum og veik og helstu meðmælendur hennar vilja meina? Getur verið að hún sé það hrörleg og tilboð hennar svo lélegt að hún þurfi alla þá meðgjöf sem hún fær? Það er rétt að fara aðeins yfir stöðu mála.

Sjálfkrafa skráning nýfæddra barna í trúfélag
Þessu fyrirkomulagi var komið á þegar Ríkiskirkjan græddi hvað mest á því, þegar nær öll þjóðin var skráð í hana. Jafnvel á þeim tíma höfðu forsvarsmenn Ríkiskirkjunnar ekki meiri trú á henni en svo að þeir mátu að það þyrfti að skrá alla sjálfkrafa í hana við fæðingu, annars færi illa fyrir henni. Getur verið að þeir hafi vitað að fæstir myndu leita eftir skráningu sjálfviljugir?

Trúboð í leik- og grunnskólum
Í gegnum tíðina hafa prestar Ríkiskirkjunnar haft greiðan aðgang að ómótuðum hugum barna í leik- og grunnskólum. Þar hafa þeir komið inn, glaðbeittir og hressir og sungið um að Jesús sé besti vinur barnanna. Hvað eiga börnin að halda? Þeim er sagt að hlýða og trúa fullorðna fólkinu í skólanum og þá hlýtur Jesús að vera besti vinur barnanna, er það ekki? Það er s.s. ekki vegna þess að börnin hafi fundið það hjá sér að Jesús sé þessi frábæri vinur, heldur vegna þess að þeim var sagt að hann væri sá besti. Þetta er sko trú í lagi. Lengi býr að fyrstu gerð og þarna er sæinu sáð sem seinna verður að hinni 'fallegu' barnatrú.

Innheimta á trúarskattinum
Af einhverjum orsökum virðast ríkistrúaðir sannfærðir um að þessi stofnun sé algjörlega ófær um að innheimta sjálf sín félagsgjöld. Þeir eru svo vissir um getuleysi hennar að ekkert annað kemur til greina en innheimta trúarskattsins í gegnum skattkerfið. Það hvarflar aldrei að ríkistrúuðum að aðrir trúaðir myndi líklega greiða þessi gjöld af fúsum og frjálsum vilja eftir heimsendingu á almennum greiðsluseðli svona rétt eins og t.d. gerist hjá Stöð 2. Nei, trúaðir hljóta að vera svo nískir á tíundina sína að það verður að kría hana út úr þeim með skattheimtu. Reyndar er það þannig að biskup sjálfur hefur sagt að trúaðir myndu hætta að borga til kirkjunnar ef þeir gætu valið um það :) og hann hlýtur að vita það manna best! Í bréfi til Alþingis árið 2002 sagði Karl Sigurbjörnsson eftirfarandi:

Verði umrætt frumvarp að lögum munu menn hugsanlega sjá sér fjárhagslegan hag í því að skrá sig utan trúfélaga því samkvæmt frumvarpinu eiga menn að fá endurgreidda árlega fjárhæð sem nemur sóknargjaldinu. Eðlilegt væri að gera sér grein fyrir því hvaða afleiðingar slíkt hefði í reynd ef samþykkt yrði. Þ. á m. yrði að kanna hvernig sóknir myndu mæta skertum tekjum með því að draga úr þjónustu, fækka starfsfólki og auka tekjuöflun.

Þannig vildi hann tryggja að enginn hefði val um að borga sóknargjöldin og að frekar yrðu þau innheimt af trúlausum og látin renna annað en að þeir fengju að hagnast á trúleysi sínu :) Þetta segir auðvitað mikið um hversu mikla trú sjálfur biskup Íslands hefur á vöruframboði fyrirtækis síns.

Guðlastslögin
Já, það er lögbundið að það megi ekki hallmæla Guði og hans háu hirð. Það þarf svo sem ekki að segja mikið meira um hversu kjánalegt það er. Jú, sumir Ríkistrúarbloggarar hóta stundum að kæra þá sem þeir eru ósáttir við skv. þessum lögum. Þau eru s.s. einhverjum Ríkistrúuðum nokkurt skjól og huggun.

Já, svona er staðan. Ríkistrúaðir hafa ekki trú á sinni kirkju nema að

  • allir séu skráðir í hana við fæðingu
  • allir séu munstraðir í hana í leik- og grunnskólum
  • félagsgjöld í hana séu innheimt með skatti
  • enginn megi tala illa um hana í almennri umræðu

Þetta kalla ég ofurtrú á sínum málstað! :)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sindri Guðjónsson

Fínn pistill.

Sindri Guðjónsson, 15.9.2010 kl. 21:54

2 identicon

Færðu rök fyrir orðinu Ríkiskirkja. 

Hver er munurinn á Ríkiskirkju og Þjóðkirkju?

Þór Hauksson 16.9.2010 kl. 09:04

4 identicon

Æi Birgir,

ekki þennan barnaskap "´Þjóðkirkjan er ríkiskirkja" er eins og að segja í sandkassanum að pabbi minn er sterkari en pabbi þinn."  Ég bíð enn eftir svarinu hver er munurinn á Ríkiskirkju og þjóðkirkju?   Þeir sem láta hæst tala um rikiskirkjuna-hver er hún og hver er munurinn á þjókirkju og ríkiskirkju!  Ég vil fá svar við þessari spurningu!

Þór Hauksson 16.9.2010 kl. 14:11

5 Smámynd: Óli Jón

Þór: Hin svokallaða þjóðkirkja er í mínum huga Ríkiskirkja vegna þess að

  • hún nýtur sérstakrar verndar ríkisins
  • hún er rekin af ríkinu
  • ríkið hefur skráð nýfædd börn í hana
  • ríkið hefur veitt henni aðgang að leik- og grunnskólabörnum vegna trúboðsstarfssemi
  • o.s.frv.

Hún er í raun ekki þjóðkirkja vegna þess að minnihluti þjóðarinnar stendur á bak við hana. Meirihluti þjóðarinnar er annað hvort á móti henni eða stendur nákvæmlega á sama um hana.

Ef ekki væri fyrir gjörgæsluaðgerðir ríkisins á síðustu áratugum þá væri hin sk. þjóðkirkja löngu dauð eða í besta falli komin af fótum fram. Í dag eru 80% þjóðarinnar skráð í Ríkiskirkjuna, sem er skammarlega lágt hlutfall m.v. alla þá meðgjöf sem hún hefur fengið í gegnum tíðina. Ég met það sem stóran ósigur fyrir Ríkiskirkjuna að hún skuli ekki vera með lágmark 95% þjóðarinnar á sinni félagaskrá. Hafðu í huga að fólk græðir ekki fjárhagslega á því að skrá sig úr henni, en samt leita skrá sig þúsundir úr henni árlega.

Þetta er því engin þjóðkirkja, heldur Ríkiskirkja.

Í hverju liggur munurinn að þínu mati? Hefði Jesús Jósepsson velþóknun á Ríkiskirkjunni eins og hún er í dag?

Óli Jón, 16.9.2010 kl. 16:58

6 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Ég persónulega hef alltaf skilið þetta svona, með orðinu ríkiskirkja eigum við við trúfélag sem að nýtur sérstaks stuðnings og verndar frá ríkinu. 

Hvaða önnur orð ríkiskirkjufólk vill nota um kirkjuna og í hvaða merkingu skiptir mig ekki máli. Þeir mega alveg kalla sig "þjóðkirkju" og skilgreina það alveg eins og þeir vilja. 

Hjalti Rúnar Ómarsson, 16.9.2010 kl. 20:16

7 identicon

Rökleysan er algjör.  Kynntu þér málin áður en að fara með staðlausa stafi.  Tek út eitt af mörgu.  Kirkjan rekin af ríkinu.   Ekki vera að láta svona frá þér.

Þór Hauksson 17.9.2010 kl. 17:13

8 Smámynd: Óli Jón

Þór: Þú verður nú að standa undir þeim kröfum sem þú gerir til annarra, ella líturðu bara út eins og hvert annað nöldurtröll hér inni :) Af hverju er Ríkiskirkjan ekki Ríkiskirkja ... það má ekki svara "af því bara!" :)

Komdu nú, greyið mitt ... svaraðu og notaðu nokkur löng orð með!

Óli Jón, 17.9.2010 kl. 17:19

9 identicon

Bendi á ágæta grein á www.trú.is og www.kirkjan.is þar sem á vandaðan hátt er fjallað um þjókirkjuhugtakið.  Ég hef kjark til að segja að það megi alltaf gera betra í kirkjustarfinu um leið og ég bendi á þá staðreynd að mikið er vel gert.  Við mættum bæta okkur í að segja frá því og þeir fjölmörgu sem sækja starf hennar frá snemma morguns til kvelds alla daga vikunnar geta líka auðvitað vitnað um.  Jesú er fullkunnugt um breyskleika manneskjunnar þeirrar sömu manneskju og hann treysti fyrir sköpun sinni.   Jesús Kristur hefur velþóknun á kirkju sinni sem berst fyrir lítilmagnanum og hefur ekki hátt um það.  Kirkjan hvort sem þér líkar það betur eða ver mun starfa áfram eftir minn og þinn dag.  Hún mun eflaust taka breytingum eins og hún hefur gert í áranna rás.  Þjóðkirkja eða ekki er ekki málið. Guð blessi þig og þína.  

þór hauksson 17.9.2010 kl. 17:25

10 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Bendi á ágæta grein á www.trú.is og www.kirkjan.is þar sem á vandaðan hátt er fjallað um þjókirkjuhugtakið.

Ég geri ráð fyrir því að Þór Hauksson sé að tala um greinina Í öldudal óvissunnar en þar segir:

Í doktorsritgerð sinni um íslenskan kirkjurétt frá 1986 (Geschichte und Gegenwartsgestalt des isländischen Kirchenrechts) heldur dr. Bjarni Sigurðsson því fram að íslenska þjóðkirkjan hafi sterk einkenni ríkiskirkjunnar enda liggur það í augum uppi þegar grannt er skoðað. Mat hans á enn við rök að styðjast formlega séð þótt lagabreytingin 1997 hafi vissulega breytt mörgu í rétta átt. 
Svo er það einkenni rökþrots að hneykslast einungis á fullyrðingum andmælenda sinna í staðinn fyrir að hrekja þau Þór.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 18.9.2010 kl. 14:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband