Færsluflokkur: Trúmál

Helgidagafriður er úrelt fyrirbæri

Þetta frumvarp er kærkomið enda kjánalegt að heilu þjóðfélagi skuli vera haldið í slíkri gíslingu sem raun ber vitni. Vonandi verður þetta samþykkt á yfirstandandi þingi, í framhaldi af því verður hægt að skoða sjálfvirka skráningu nýfæddra barna í trúfélag. Eins merkilegt og það er þá virðast nýfædd börn ólmust í skráningu í Ríkiskirkjuna því aldurshópurinn 0-1 árs er stærstur allra aldurshópa.

Eitt skref í einu, þannig verður undið ofan af vitleysunni :)


mbl.is Vilja afnema lög um helgidagafrið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég vil að ríkið innheimti sóknargjöld

Sóknargjöld, þessi meintu félagsgjöld sem margir vilja kalla, tilheyra þessum undarlegu fyrirbærum í þjóðfélaginu sem fáir átta sig á. Nú er það þannig að sagt er að ríkið innheimti þessi gjöld, en samt fær enginn greiðsluseðil, sundurliðun á skattskýrslu eða afdrátt af launaseðli. Ríkið er því ekki að innheimta þessi gjöld, heldur eru þau tekin úr sameiginlegum sjóðum borgaranna og því borga, í raun, allir sóknargjöld.

Ég hef skrifað margar greinar um sóknargjöld og hvatt til þess að þau verði afnumin í núverandi mynd. Nú ætla ég að víkja aðeins af leið og mælast til þess að raunveruleg innheimta sóknargjalda verði tekin upp. Mín vegna má ríkið sjá um innheimtuna alveg ókeypis, en gjaldið verður að vera sérgreint og aðeins tekið af þeim sem skráðir eru í trú- eða lífsskoðunarfélag. Ríkið heldur skrá yfir þetta fólk og því eru engin tækni- eða framkvæmdaleg vandamál sem gætu tálmað málið.

Það er mín stað- og bjargfasta trú að allir Íslendingar geti fylkt sér um þessa tillögu og gert hana að sinni. Hún er sanngjörn gagnvart öllum. Aðeins þeir sem eiga að greiða munu fá rukkun. Trú- og lífsskoðunarfélög verða ekki fyrir búsifjum því tryggt verður að ríkið muni sjá um innheimtuna án kostnaðar fyrir þau. Til að gera þetta enn betra fyrir þessi félög yrði tryggt að þau gætu sjálf ákveðið hvaða upphæð yrði innheimt án þess að einhver opinber starfsmaður kæmi nálægt því. Gjaldið gæti því verið 500 kall eða fimm þúsund kall á mánuði, það væri alfarið þeirra val. Öll gjöld myndu innheimtast því ríkið sæi um það. Allir græða; félögin, félagar þeirra og þeir sem standa utan trú- og lífsskoðunarfélaga.

Er þetta ekki gott markmið fyrir árið 2018?


Linnulaus heimtufrekja Ríkiskirkjunnar

Ótrúlegt er að sjá hvernig stofnun sem í gegnum tíðina hefur sjaldnast treyst sér til að sækja fjármögnun til félagsmanna sinna telur sig geta galdrað fram einhverjar upphæðir og fullyrað að þjóðin skuldi henni. Þessi ólánsgaleiða, sem telur sig eiga hjarta þjóðarinnar skuld vælir og sífrar um óréttlæti og mismunun af því að hún fær ekki endalaust af óverðskuluðum peningum. Kirkjusókn dregst saman, kirkjur standa nær tómar á messutímum og þeir fáu sem þar sitja eru hoknir og gráir.

Áhugavert er að skoða hvernig þessi gengi þessarar gráu stofnunar hefur þróast í gegnum tíðina. Árið 1998 voru Íslendingar rétt um 272 þúsund talsin og þá töldust vélskráðir félagar Ríkiskirkjunnar um 245 þúsund. Árið 2017 hefur Íslendingum fjölgað um 66 þúsund, en þá fækkar sauðum Ríkiskirkjunnar um 5400. Þetta gerist þrátt fyrir að enginn hefur fjárhagslegan ávinning af því að skrá sig úr himnabandalaginu, enda myndi slíkt verða til þess að fótunum yrði kippt undan apparatinu á örstuttum tíma eins og gamli biskupinn hræddist.

Ég ítreka fyrri áskoranir mínar til Ríkiskirkjunnar um að hún láti reyna á greiðsluvilja þjóðarinnar með því að afþakka ölmusuna frá ríkinu, sem hún telur hvort eð er smánarlega litla, og sendi þess í stað greiðsluseðla til allra svokallaðra félagsmanna sinna. Við vitum auðvitað að það mun aldrei gerast því öll yfirstjórn Ríkiskirkjunnar veit að heimtur yrðu hraksmánarlega litlar.

Nei, prelátar hennar munu halda áfram að sífra og suða, tafsa og tuða í vorkunnarlegri þrá eftir meiri pening. Hún er ofalin og spillt af meðgjöf síðustu fjölmargra áratuga og eins og langt leiddur fíkill getur hún ekki hugsað sér að hætta.

Árið 1998 voru 89,91% þjóðarinar vélskráð í Ríkiskirkjuna og í dag þessi tala komin niður í 69,89%. Í raun á hún skilið vorkunn okkar því hún hefur tapað allri reisn, sjálfsvirðingu og dug.

Til hamingju, Biskupsstofa og Kirkjuráð, fyrir enn eitt ömurlega betlibréfið. Þið eruð fákunnandi á flestum sviðum, en á betlibréfasviðinu brillerið þið hreinlega.


mbl.is Safna skuldum við þjóðkirkju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamlar kallar að hlutast til um kynlíf annarra

scary-peeper-a-peeping-tom-figurine-to-scare-people-8873Hún er mögnuð, þrásækni gamalla kristinna kalla, að vilja hlutast til um kynlíf annarra. Allt frá því að kynlífsfræðingurinn Páll postuli fór að argast út í alls konar kynlífstengda hluti sem sjálfskipaður og fjölkunnugur sérfræðingur á því sviði, hafa gamlir og úrillir kallar haft skoðun á því hverjir elska hverja og með hvaða fangbrögðum ástarlífsins fólk tjáir þá ást. Nei, hommar og lesbíur eru ömurlegt fólk í hugum þessara þráhyggnu kynlífsspekúlanta og aðeins kynlíf að hætti trúboðanna er réttmætt og hreint.

En hið jákvæða við þetta er að þessir gömlu og fúlu kallar hafa síðasta söludag og þegar hann rennur upp tekur við frjálslyndara og víðsýnna fólk sem hefur fullan skilning á því að fólk er alls konar og að það vilji gera alls konar hluti. Þá verða kynlífsfræði Páls postula sett út í horn því þau eru forneskjuleg, grimmileg og fjandsamlega fjölda fólks.

Gleðin er í fjölbreytileikanum, ekki fúllyndi gamalla kalla sem hafa þráhygginn áhuga á kynlífi annarra.


mbl.is Höfnuðu biskupaskýrslu um samkynhneigð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkiskirkjan þarf meiri pening og óheftan aðgang að leikskólabörnum

Þetta er það eina sem getur bjargað henni (og þó ekki). Á hverju einasta ári rýrnar Ríkiskirkjan þrátt fyrir fádæma stuðning ríkisins við hana í formi peninga og forréttinda.

Þetta ár er það fyrsta hvar innan við 70% þjóðarinnar eru skráð í Ríkiskirkjuna. Höfum í huga að ekki eru mörg ár síðan að þessi tala var í kringum 92%. Hið skondna í stöðunni er að fjölmennasti hópurinn sem sækir um aðild að Ríkiskikrkjunni eru nýfædd börn :) Já, 65 nýfædd börn óskuðu eftir því að vera skráð í félagatal hennar á síðasta ári. Er það ekki frábært? Auðvitað tekur Ríkiskirkjan þeim fagnandi, enda munu þau breytast í peningamyllur eftir 18 ár þegar ríkið byrjar að ausa peningum í kirkjuna vegna þessara umsókna. En þessum umsækjendum fer fækkandi eftir að reglum um skráningu nýfæddra barna í trúfélag móður var breytt, sem er vel, því eins og allir eru sammála um eru engar haldbærar ástæður fyrir því af hverju skrá þarf nýfædd börn í svo gildishlaðið félag sem Ríkiskirkjan er.

Nú er farið að þrengast verulega að Ríkiskirkjunni sem frá stofnun hefur aldrei þurft að reiða sig á neitt annað en kjánalega mikinn stuðning frá ríkisvaldinu. Sauðirnir hafa aldrei viljað borga trúartollinn og því var ríkið látið sjá um það.

En nú sverfir að. Þjóðinni er alls ekki illa við Ríkiskirkjuna, henni er bara alveg slétt sama. Hún skilur ekki af hverju ríkið sturtar öllum þessum peningum í hana árlega, enda vill þjóðin betri nýtingu á þessum fjármunum.

Í fyrra var hlutfall Hagstofutrúaðra 71,55%, í ár er það 69,9%, á næsta ári dettur það í 68,5% og svo koll af kolli. Þessu verður ekki breytt nema með lögskráningu allra Íslendinga í Ríkiskirkjuna, það eitt mun bjarga henni frá því að hverfa eins og ryk í vindi.


mbl.is Meirihlutinn hlynntur aðskilnaði ríkis og kirkju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undanhald trúar í Bandaríkjunum

Pew Research Center kannar stöðugt hugi fólks til margvíslegustu mála og á dögunum var kannað hvernig trúfesti Bandaríkjamanna væri háttað. Þetta var ekki í fyrsta skipti sem þetta var gert, en niðurstöður þessarar könnunar eru hins vegar nýmæli því í þær sýna nú að trúlausir eru nú stærsti einstaki þjóðfélagshópurinn í Bandaríkjunum ef horft er á þau út frá trú. Grafið undir greininni sýnir helstu niðurstöður könnunarinnar, en áhugavert er að hlutfall trúlausra hækkar um 50% á milli áranna 2008 og 2016 þegar það fer úr 14% í 21%. Kaþólikkar sleikja sárin því þeir eru nú 20% í stað 23% fyrir átta árum. Boðunarkirkjan heldur sínum 20%, en hvítir mótmælendur fara úr 19% í 14%.

Þá er áhugavert að sjá að þeim fækkar sem telja guðshús skipta mál í úrlausn félagslegra álitamála, en þeir voru 75% árið 2008 en eru 58% nú átta árum síðar. Þá fækkar þeim einnig sem telja mikilvægt að forseti Bandaríkjanna hafi sterkar taugar til trúar; voru 72% en eru nú 62%.

Allt bendir þetta í sömu átt. Með ungu fólki kemur fálæti í garð trúar á meðan hún á sér helst vígi í efri aldurshópum. Ekki þarf mikla spádómsgáfu til að sjá hvernig þetta endar ef svo fer sem horfir.


Um 20% fleiri vilja fjármagna Ríkiskirkjuna

Píratar létu á dögunum kanna hvernig Íslendingar vilja ráðstafa ríkisfjármunum og er það þriðja árið í röð sem það er gert. Athygli vekur að uppsveifla er í hópi þeirra sem vilja setja fé í og eykst fjöldi þeirra um 20% á milli ára.

Þó er það svo að þegar rýnt er í tölurnar kemur í ljós að á bak við þessa aukningu er eru aðeins um 700 manns því í heild vilja 1,2% þjóðarinnar sturta fé í Ríkiskirkjuhítina og er það aukning frá 1,0% frá í fyrra. Í ár eru það því rétt liðlega 4 þúsund manns sem styðja þennan makalausa gjörning og hefur þeim fjölgað tæplega 700 frá í fyrra, en þá hafði þeim hins vegar fækkað nokkuð frá árinu áður eins og fyrr segir.

Það fækkar stöðugt kennitölum í félagatali Ríkiskirkjunnar og undanfarin ár sést glögglega að fólk setur fjármögnun starfsemi hennar í neðsta sæti. Teiknin sjást á lofti, Biskupsstofa er sundruð í deilum um völd og áhrif og almenningur snýr baki við henni. Hryggjarstykkið í félagatalinu skráði sig aldrei á það sjálft og er einfaldlega of sinnulítið til að leiðrétta vélskráningu ríkisins í denn. Efstu dagar Ríkiskirkjunnar eru því í hönd, en nú vantar kjarkinn til þess að bregðast við og koma málum í rétt horf.

Vonandi hafa nefndarmenn í endurskoðunarnefnd fjármálaráðuneytis þessa niðurstöðu í huga þegar fjárhagslegt samband ríkis og kirkju verður endurskoðað, en sú vinna ætti að vera hafin núna. Beri þeir einhverja virðingu fyrir vilja þjóðarinnar og fjárhagslegri heill hennar verða framlög til Ríkiskirkjunnar skorin niður við trog.


mbl.is Heilbrigðismálin fyrst, kirkjuna síðast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Riftum Ríkiskirkjusamningnum

Nú þegar Ríkiskikjan er á hröðu undanhaldi er rétt að skoða gamlan og vondan samning sem gerður var þegar þjóðin var sakbitin og þjökuð af meintri synd. Nóg er komið af austri þessarar ölmusu. Samninginn verður að gera upp, ríkið tekur til sín þær jarðir sem hún hefur greitt fyrir og skilar hinum, ef einhverjar eru, sem væntanlega eru þá svo verðmætar* að Ríkiskirkjan getur lifað í vellystingum þótt sauðirnir hverfi á braut.

Hvernig sem allt veltur verður þessari sjálftöku að ljúka. Hún var í besta falli vafasöm þegar henni var komið á og er hreint út sagt fáránleg í dag.

* Þær eru ekki svo verðmætar því Ríkiskirkjunni hefur aldrei tekist að lifa á þessum meintu eignum sínum sem hún hefur 'eignast' með afar dularfullum hætti í gegnum tíðina.


mbl.is Vilja segja upp samningi ríkis og kirkju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gleðitíðindi fyrir páska

Þrátt fyrir margháttaða neyðaraðstoð frá ríkinu fjarar undan Ríkiskirkjunni á öllum sviðum. Félagatal hennar rýrnar að jafnaði um 1% árlega sem er magnað eitt og sér, en hreint ótrúlegt þegar haft er í huga að mikill fjöldi nýfæddra barna er skráður í hana við fæðingu og að peningum ausið í hana hægri vinstri.

Tvennt er gott við það að 4805 Íslendingar leiðrétta skráningu sína hjá Trúareftirliti ríkisins. Annars vegar er undið aðeins ofan af meingölluðum staðtölum um trúarlíf þjóðarinnar, en vegna margháttaðra vélabragða hefur þeim verið haldið utan marka þess veruleika sem venjulegt fólk hrærist í. Helsta dæmi því til sönnunar er að fyrir 20 árum var því haldið fram að um 90% þjóðarinnar væru kristin sökum þessarar skráningarbellibragða. Hins vegar sparast tæplega 52 milljónir í ár vegna þessa sem geta þá nýst til fjármögnunar á aðkallandi og krefjandi verkefnum.

Þegar dæmið er skoðað 10 ár aftur í tímann kemur í ljós að Ríkiskirkjan hefur tapað um 614 milljónum á þessari óþægð sauðanna, en samtals nemur nettó fækkunin rétt tæplega 14 þúsund manns. Einhver hluti þeirra hefur leitað í önnur trúfélög og hluti þeirra endar utan trúfélaga, en þar hefði það fólk hvort eð er verið hefði ríkið ekki vélskráð það í trúfélag við fæðingu, Ríkiskirkjunni til heilla og án nokkurs ágóða fyrir viðkomandi sauð.

Til hamingju, Íslendingar, þessar fréttir eru afar góð páskagjöf :)


mbl.is Þjóðkirkjufólki fækkar hraðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um ríkisstofnunina Þjóðkirkjuna

Í frétt Moggans í dag segir:

Í greinargerð biskups segir að jafnan hafi verið gengið út frá þeim skilningi að biskupsstofa væri ríkisstofnun eða opinber stofnun sem lúti stjórn biskups Íslands sem forstöðumanns stofnunarinnar. Biskup fari þannig eins og hver annar forstöðumaður ríkisstofnunar með ábyrgð á og ráðstöfunarrétt yfir tekjum stofnunarinn­ar í því skyni að uppfylla þær skyldur sem á biskupsembættinu hvíli samkvæmt lögum frá Alþingi, starfsreglum og samþykktum kirkjuþings og öðrum heimildum.

Aumir leikmenn geta nú varla haft réttari skoðun á málinu en biskup. Þjóðkirkjan = ríkisstofnun = ríkiskirkja ... svo einfalt er það.

Er lífið ekki dásamlega skondið og skemmtilegt :)

#jonvalur #predikarinn


mbl.is Deila um völd innan þjóðkirkjunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband